07 maí Æðakerfi samfélagsins þarf að vera sterkt
Borgarráð Reykjavíkur hefur, í þverpólitísku samráði, unnið að aðgerðum sem eiga að styðja við heimilin og atvinnulífið vegna afleiðinga COVID-19. Við erum að sjá áður óþekktar stærðir í atvinnuleysi í Reykjavík og við því þarf að bregðast.
Störf í borginni
Nú á fyrstu dögum maímánaðar höfum við kynnt aðgerðir og verkefni, sem hafa það markmið að efla mannlíf og atvinnu í borginni. Nýlega kynnti Reykjavíkurborg aukna innspýtingu í viðhaldsverkefni. Þar verður áhersla lögð á mannaflsfrek verkefni, sérstaklega við viðhald skóla og leikskóla.
Reykjavíkurborg hefur líka ákveðið að bæta 1.000 störfum við þau 822 sumarstörf sem við höfðum áður samþykkt. Lögð verður áhersla á störf fyrir námsmenn, úrræði fyrir atvinnuleitendur og umsækjendur um fjárhagsaðstoð. Með haustinu munum við leggja til frekari aðgerðir með áherslu á einyrkja og innflytjendur.
Skemmtileg borg
Íbúaráð fá fjármagn til að hvetja til gleði og skemmtilegheita úti í hverfunum. Styrkja á miðborgina, með auknu mannlífi og menningu fyrir alla. Við ætlum að fjölga viðburðum, lífga við borgarrými og markaðssetja miðborgina okkar allra sem áfangastað Íslendinga. Það er líka búið að samþykkja að stækka menningarpott borgarinnar til að efla menningu í borginni.
Í borgarstjórn á þriðjudag var fjallað um ársreikning Reykjavíkurborgar 2019. Hann sýnir okkur að fjárhagur borgarinnar er sterkur og að borgin hefur þó nokkuð rými til að takast á við komandi þrengingar. Ef ekki tekst að ná tökum á atvinnuleysinu, sérstaklega með því að störf snúi aftur og ný störf verði til í einkageiranum, geta komandi þrengingar þó orðið verulegar fyrir sveitarfélög landsins.
Það þarf jafnvægi
Fjármálasvið Reykjavíkurborgar hefur undirbúið nokkrar greiningarmyndir fyrir komandi ár og miðað við þá niðursveiflu sem við erum í gæti frávik næstu fjögurra ára orðið 60 milljarðar frá þeim áætlunum sem Reykjavíkurborg hafði gert.
Reykjavíkurborg mun því þurfa að ná ákveðnu jafnvægi, þar sem við tökum höndum saman um að halda framkvæmdastigi uppi, styðjum við þá íbúa borgarinnar sem þurfa á hinu félagslega neti að halda, hvetjum til gleði og lífs í borginni en gerum borgina ekki fjárhagslega ósjálfbæra þegar við komum upp úr þessari niðursveiflu, sem spáð er að verði jafnvel jafndjúp og kreppan mikla í upphafi 20. aldar.
Þungt farg á mörg sveitarfélög
Sveitarfélögunum er mun þrengri stakkur skorinn en ríkinu þegar kemur að hugsanlegri tekjuöflun. Hættan er sú að sveitarfélögin, sem eru æðakerfi samfélagsins og veita nauðsynlega grunnþjónustu, verði lömuð til langs tíma, eigi þau einungis að bregðast við með stóraukinni skuldsetningu.
Minni tekjur og aukin útgjöld er áfall sem öll sveitarfélög munu þurfa að takast á við. Ekki öll eru í jafn sterkri stöðu og Reykjavíkurborg og getur þetta orðið mjög erfitt fyrir mörg þeirra. Því hafa sveitarfélögin kallað eftir samtali við ráðherra sveitarstjórnarmála til að ræða aðkomu ríkisins til að styðja við getu þeirra til að taka þátt í viðnámi, auka nauðsynlega velferðarþjónustu, ef la vinnumarkaðsaðgerðir og auka framkvæmdir sínar. Undir það ákall tek ég.