29 ágú Skynsamlegar fjárfestingar til framtíðar
Efnahagsleg áhrif kórónufaraldursins má sjá hjá heimilum og hinu opinbera, bæði ríki og sveitarfélögum. Helsta ógnin sem við stöndum frammi fyrir í dag er vaxandi atvinnuleysi sem leggst þungt á þá sem verða því fyrir og getur orðið mjög dýrt fyrir samfélagið allt. Seðlabankinn sagðist í vikunni gera ráð fyrir 10% atvinnuleysi á þessu ári, sem þýðir að um 20 þúsund manns verða án atvinnu.
Markmið þessa hausts hlýtur að vera að milda höggið fyrir þá sem verða fyrir atvinnumissi með áframhaldandi hlutabótum og lengingu á tekjutengdum bótum, líkt og ríkisstjórnin hefur þegar tilkynnt um. Markmið hins opinbera hlýtur líka að vera að koma í veg fyrir atvinnuleysi eftir því sem kostur er, með því að styðja við fólk og fyrirtæki og halda uppi atvinnustigi.
Grænar áherslur Reykjavíkurborgar
Frá því að faraldurinn hófst hefur Reykjavíkurborg lagt annars vegar áherslu á heilbrigði og varnir gegn dreifingu veirunnar og hins vegar á efnahagslega viðspyrnu í þágu borgarbúa. Strax í vor kynntum við aukna innspýtingu t.d. í viðhaldsverkefni og sumarstörf nema. Við kynntum líka Græna planið, um grænar áherslur upp úr efnahagsáfallinu, þar sem eru tekin mikilvæg skref til framtíðar, skref sem við þurfum að taka til að bæta lífsgæði, loftgæði og loftslag. Græna planið þarf að byggjast á sjálfbærni, þar sem vandamálum er ekki ýtt áfram til komandi kynslóða, heldur sé það á okkar ábyrgð að bregðast við þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir.
Mikill tekjusamdráttur
Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2019 sýndi sterkan fjárhag borgarinnar og rými til að takast á við komandi þrengingar. Nú hefur sex mánaða uppgjör borgarinnar verið lagt fram og sýnir glögglega að tekjur eru að dragast hratt saman á meðan útgjöld aukast vegna kórónuveirufaraldursins, líkt og sést hjá öðrum sveitarfélögum og ríkinu. Það var við því að búast að tekjur A-hluta borgarinnar yrðu mun lakari en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.
Skuldir samstæðu Reykjavíkur hafa aukist á þessu ári, til að geta brugðist við efnahagssamdrættinum og minnkandi tekjum borgarinnar og fyrirtækjum hennar. Staðgreiðsla skatta er t.a.m. tæpum 3 milljörðum, eða 6,6%, lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir á fyrstu sex mánuðum ársins. Minni umsvif í efnahagslífinu sjást einnig í minni tekjum Strætó og Faxaflóahafna. Þá hefur lækkun á álverði og veiking krónunnar frá áramótum haft töluverð áhrif á rekstrarniðurstöðu Orkuveitunnar.
Strax í vor lagði Reykjavíkurborg fram sviðsmyndir um efnahagsleg áhrif kórónuveirufaraldursins og hefur hún því verið undirbúin fyrir samdrátt. Áfram mun Reykjavíkurborg byggja á greiningu fagmanna borgarinnar til að bregðast við á traustum og faglegum grunni.
Sjálfbærni til framtíðar
Vinnumarkaðsaðgerðir hins opinbera þurfa að gera ráð fyrir aðgerðum strax, til að stuðla að auknum tekjum og lækkun kostnaðar til framtíðar litið. Hinn kosturinn er að flýta framkvæmdum sem þegar hafa verið ákveðnar.
Í áætlunum til næstu fimm ára ætti því að stefna að því að færa meginþunga framkvæmda eins framarlega í tíma og kostur er. Slíkar framkvæmdir geta t.d. lotið að uppbyggingu mikilvægra innviða eða að flýta snjallvæðingu ferla sem mun spara til framtíðar. Við þurfum þó að fara gætilega og tryggja að um tímabundnar aðgerðir verði að ræða og að þær leiði ekki til þess að hið opinbera bólgni út á þann hátt að erfitt verði að skera niður þegar betur árar.
Flýtum umhverfisvænum innviðum
Nú eru sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og ríkið að samþykkja stofnun opinbers hlutafélags sem mun bera nafnið Góðar samgöngur ohf. og mun sjá um framkvæmd samgöngusáttmálans. Stærsti eigandinn verður ríkið með 75% hlut og svo Reykjavík með 14% en önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu með minna.
Með stofnun Góðra samgangna gefst ríkinu og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu tækifæri til þess að flýta framkvæmdum sem þegar er búið að ákveða að ráðast í, til að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Til dæmis væri hægt að flýta framkvæmdum upp á 8,2 milljarða sem búið er að eyrnamerkja göngu- og hjólastígum, göngubrúm og undirgöngum.
Þrátt fyrir lægri tekjur þarf Reykjavíkurborg, líkt og öll sveitarfélög í landinu, að vera þess reiðubúin að veita góða grunnþjónustu og sveitarfélögin mega ekki verða til þess að magna niðursveifluna með því að fara í harkalegan niðurskurð núna. Það er skynsamlegra, fyrir alla, að halda uppi öflugu framkvæmdastigi og reyna að flýta framkvæmdum sem reynast hagkvæmar og þarf að fara í. Þó svo að það þýði tímabundið aukna skuldsetningu, sem Reykjavík getur staðið undir.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. ágúst 2020