Græna planið

Stöndum saman fyrir borgarbúa

Okkar helstu sérfræðingar í faraldsfræðum segja okkur að við séum komin upp brekkuna en enn séu nokkrar vikur í að toppnum sé náð og smituðum fækki. Þetta er langhlaup þar sem þarf að standa með fólki og fyrirtækjum, til að við sem samfélag stöndum sterk að faraldrinum loknum. Þegar að því kemur munu dagarnir einkennast aftur af rútínunni sem við þekkjum. Sólin verður hærra á lofti og dagarnir lengri. En við þurfum líka að vera undirbúin undir að þá muni taka einhvern tíma fyrir samfélagið að jafna sig, bæði samfélagslega og efnahagslega.  

Forgangsatriði að tryggja þjónustu

Í þessu langhlaupi sjá sveitarfélögin í landinu að reglulega þarf að bregðast við nýju ástandi. Það er ekki búið að leggja brautina, líkt og í maraþonhlaupi. Sumt er erfiðara að sjá fyrir og þá þarf oft að styðjast við útsjónarsemi starfsmanna sem sýnt hafa á undanförnum vikum, á undraverðan hátt, hvernig hægt er að bregðast við hratt og örugglega við áður óþekktum vanda.

Í þessu ástandi er það fyrsta forgangsatriði Reykjavíkurborgar að tryggja, eins og hægt er órofna þjónustu fyrir borgarbúa, eins og leiðbeiningar sóttvarnarlæknis og almannavarna leyfa. Til að tryggja þjónustuna, hvort sem það er mikilvæg velferðarþjónusta fyrir sjúka, fatlaða eða aldraða eða skólar og tómstundir fyrir börn, hafa starfsmenn borgarinnar brugðist fumlaust við. Jafnvel þó einungis sé hægt að skipuleggja starfið til skamms tíma í senn og að á hverjum degi þurfi að bregðast við fleiri áskorunum, veikindum og lokunum.

Verjum störfin

Þegar kemur að efnahagslegum áhrifum er vitað að þau hafa nú þegar skollið á fyrirtækjum í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Fljótlega munum við einnig horfa upp á neikvæðar efnahagslegar afleiðingar vegna nauðsynlegra tímabundinna sóttvarnaraðgerða, svo sem víðtækra sóttkvía. Þetta er áfall á hagkerfið sem bætist við kólnun síðustu mánaða.

Sveitarfélögin munu þurfa að bregðast við skammtímavanda fyrirtækjanna, til að verja störfin og starfsfólkið. Hrósa má ríkisstjórninni fyrir hversu langt á að ganga til þess að aðstoða fyrirtæki, til skamms tíma, við að halda fólki á launaskrá. Hún er mikilvæg til að verja heimilin og draga úr óvissu.

Ólíkar sviðsmyndir

Neyðarstjórn Reykjavíkur setti strax af stað teymi til að greina mögulega þróun, sem hægt væri að byggja ákvarðanir og áætlanir á. Ákveða þarf hvað skuli gera nú, hvað skuli gera þegar faraldurinn er í rénun og samfélagið tekur við sér aftur. Að lokum þarf að endurskoða allar fjárhagsáætlanir Reykjavíkurborgar. Það þarf að meta efnahagsleg áhrif faraldursins á rekstur og fjárhag borgarinnar, bæði til skamms og langs tíma.

Búið er að greina þrenns konar sviðsmyndir um þróun efnahagslífsins eftir því hvernig faraldurinn gæti þróast. Mikilvægt er að hafa í huga að í sviðsmyndunum felst ekki spá um komandi tíð. Þær eru einungis teiknaðar upp til að hægt sé að meta nauðsyn aðgerða við mismunandi aðstæður. Fyrsta sviðsmyndin er V-laga kúrfa, ef tekst að ráða niðurlögum veirunnar með markvissum aðgerðum, en niðursveiflan í efnahagslífinu nær allt að sex mánaða. Önnur sviðsmynd er U-laga kúrva, þar sem niðursveiflan í efnahagslífinu er til níu til tólf mánaða. Versta sviðsmyndin og jafnframt sú ólíklegasta gerir ráð fyrir L-laga kúrfu, með niðursveiflu til ársins 2023, kreppu í helstu viðskiptalöndum okkar og verulegan samdrátt í einkaneyslu og ferðaþjónustu.

Vinnum saman að lausnum

Aðgerðir og áætlanir Reykjavíkur þurfa að vera vel undirbúnar, því á óvissutímum er hætta á að stokkið sé á töfralausnir, fremur en að finna vel ígrundaðar lausnir. Viðbrögð til að mæta fólki og fyrirtækjum munu birtast í skrefum eftir því hvernig ástandið þróast.

Við þurfum að vinna saman að lausnum. Því tók meirihlutinn vel í hugmyndir Sjálfstæðisflokksins um aðgerðir sem fram komu á borgarráðsfundi á fimmtudag. Þeim hugmyndum var vísað í starfshóps um aðgerðir í efnahags- og fjármálum vegna áhrifa af COVID-19. Samband sveitarfélaga hefur nú sent frá sér hugmyndir og ábendingar að aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf, sem Reykjavíkurborg mun taka tillit til í vinnunni fram undan en ríkið þarf einnig að koma að. Á næstu dögum munu fyrstu viðbrögð Reykjavíkurborgar birtast. Þar er til skoðunar hvernig hægt sé að létta undir með fyrirtækjum, með það að markmiði að þau þurfi síður að segja upp starfsfólki. Eftir því sem ástandið þróast verður svo brugðist frekar við. Við þurfum öll að standa saman í að verja fólk og fyrirtæki.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. mars 2020

Tags: