Hallgrímskirkja

Sjáum fram úr kófinu

Við viljum vera tilbúin þegar ferðamenn koma aftur. Við getum ekki látið reka á reiðanum og beðið þess í von og óvon hvað gerist þegar Covid-ástandi lýkur og lífið færist aftur í samt horf.

Þess vegna samþykkti borgarstjórn á þriðjudag ferðamálastefnu sem hefur verið unnin í góðu samstarfi með borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins og hagaðilum.

Ferðaþjónustan hefur ýtt undir margvíslega grósku og gætt borgina lífi, það sjáum við best í dag þegar ferðamennina vantar. Hún hefur skilað miklum tekjum til fyrirtækja, einstaklinga og hins opinbera og við væntum þess að hún muni gera það aftur þegar við komumst út úr kófinu.

Verðum tilbúin

Þegar ferðaþjónustan óx í kjölfar síðustu kreppu var Ísland og Reykjavík alls ekki tilbúin. Við sáum það best á fréttaflutningi á alls konar árekstrum sem urðu á milli gesta og heimamanna.

Gróskan reyndi á innviði borgarinnar og þolinmæði borgarbúa sem kvörtuðu meðal annars undan töskuglamri og rútum. Í dag erum við í allt annarri stöðu. Við vitum að ferðamenn voru hér og að þeir munu koma aftur. Það eru til innviðir sem við þurfum að gera enn betri til að Reykjavík sé betur tilbúin að taka á móti fjölda gesta í sem mestri sátt við borgarbúa. Því er eitt leiðarstefið í ferðamálastefnunni að eiga í reglulegu samtali við íbúa og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu.

Líka skemmtileg borg fyrir okkur

Við þurfum líka að muna að kynna Íslendingum allt það skemmtilega sem hægt er að gera í Reykjavík, líkt og við markaðssetjum borgina fyrir erlenda gesti. Við þurfum að hugsa Reykjavík sem áfangastað en ekki bara stutt stopp á leið erlendra gesta um okkar fallega land. Samtal við hagsmunaaðila og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um það hvernig við markaðssetjum höfuðborgarsvæðið allt sem áfangastað er hafið.

Af því að við viljum sjá fram úr kófinu eru í ferðamálastefnunni mælanleg markmið sem við ætlum okkur að ná sem styðja við meginmarkmiðin okkar þrjú.

Lifandi borg

Fyrsta meginmarkmið er að Reykjavík sé lifandi og framsækin mannlífsborg umvafin einstakri náttúru. Til að uppfylla þetta markmið þarf stöðugt að styrkja innviði menningarstarfs í Reykjavík og draga markvisst fram tækifæri til útivistar og íþróttaiðkunar í einstöku umhverfi Reykjavíkur, líka um vetrarmánuðina. Við viljum einnig styrkja stöðu Reykjavíkur sem ráðstefnuborgar.

Græn borg

Annað meginmarkmið er að í Reykjavík byggist upp sjálfbær ferðaþjónusta í sátt við samfélagið. Borgin ætlar að eiga frumkvæði að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum með eigin aðgerðum, hvatningu og samstarfi. Við þurfum líka markvissa stýringu, markaðssetningu og skipulag til að dreifa álagi vegna ferðaþjónustu jafnar um borgina.

Snjöll borg

Þriðja meginmarkmiðið er að Reykjavík verði samræmd, einföld, skilvirk og snjöll, þar sem stjórnkerfi er samræmt og einfaldað og stafrænum lausnum beitt til að vinna að markmiðum stefnunnar. Stafræn uppbygging mun bæði nýtast gestum og íbúum.

Ferðaþjónustan á að vera jákvæður drifkraftur sem þróast í sátt við íbúa, atvinnulíf, umhverfi og menningu. Þegar ferðamenn koma aftur mun Reykjavík vera tilbúin.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. október 2020