Virkni gegn atvinnuleysi

Við vilj­um öll til­heyra sam­fé­lagi. Sam­fé­lagið get­ur verið fjöl­skyld­an okk­ar, vin­ir, áhuga­mál­in okk­ar og þjóðin öll. Mik­il­vægt sam­fé­lag fyr­ir marga er tengt vinnu­um­hverf­inu okk­ar. Við eig­um vini og fé­laga í vinn­unni. Vinn­an set­ur okk­ur í rútínu yfir dag­inn, þó svo að hún taki stund­um yfir of mik­inn tíma. Við skil­grein­um okk­ur að hluta út frá vinn­unni. Þannig er vinn­an okk­ar á hverj­um tíma hluti af sjálfs­mynd­inni.

Þegar við miss­um vinn­una, líkt og nú hef­ur gerst fyr­ir allt of marga, miss­um við meira en bara tekj­urn­ar sem vinn­unni fylgja. Við miss­um lífs­gæði. Í lok des­em­ber voru 21.365 ein­stak­ling­ar skráðir at­vinnu­laus­ir, þar af 8.606 í Reykja­vík. Við vit­um að þar að auki eru þau sem misst hafa rétt til al­mennra bóta eða hafa aldrei haft slík­an rétt. Það er fólkið sem kem­ur til sveit­ar­fé­lag­anna til að fá fjár­hagsaðstoð. Við vit­um að lang­tíma­ at­vinnu­leysi hef­ur veru­leg áhrif á sál­ar­líf og virkni fólks. Við vit­um líka að lang­tíma­ at­vinnu­leysi dreg­ur úr lík­un­um á því að snúa aft­ur á vinnu­markað, nema með tölu­verðum stuðningi.

Við þurf­um að tala um at­vinnu­leysið

Sveit­ar­fé­lag get­ur ekki skapað störf fyr­ir alla þá íbúa sem vant­ar vinnu. En í sam­starfi við önn­ur sveit­ar­fé­lög, ríkið og þriðja geir­ann er hægt að bjóða sam­hliða upp á önn­ur virkniúr­ræði. Með þeim er hægt að styðja við þau sem misst hafa vinn­una. Við höf­um nú um tíma ein­blínt á hvernig við get­um aðstoðað fyr­ir­tæk­in sem hafa verið í vanda. Og þess þarf líka. En nú fjölg­ar þeim veru­lega sem hafa verið án at­vinnu í sex mánuði eða leng­ur. Það er líka sér­stakt áhyggju­efni hversu fjöl­mennt ungt fólk er meðal þeirra sem eru án at­vinnu. Lang­tíma ­at­vinnu­leysi ungs fólks get­ur orðið sam­fé­lag­inu mjög dýrt, ef við náum þeim ekki inn á vinnu­markaðinn aft­ur.

Samþykkt að skapa 200 störf í Reykja­vík

Sem hluta af Græna plan­inu, end­ur­reisn Reykja­vík­ur upp úr krepp­unni, hafa verið samþykkt­ar aðgerðir til að styðja fólk aft­ur til vinnu. Í borg­ar­ráði á fimmtu­dag samþykkt­um við mark­viss­ar vinnu- og virkniaðgerðir. til þess að hjálpa Reyk­vík­ing­um sem fá at­vinnu­leys­is­bæt­ur eða fjár­hagsaðstoð til vinnu. Fyrsti áfangi mun hefjast í fe­brú­ar, þegar skapa á um 200 störf og stuðningsúr­ræði, meðal ann­ars í sam­starfi við Vinnu­mála­stofn­un. Heild­ar­kostnaður vegna þess­ara aðgerða verður tæp­lega 500 m.kr. Góð reynsla er af vinnu­markaðsaðgerðum hjá Reykja­vík­ur­borg, eft­ir mark­viss­ar aðgerðir eft­ir efna­hags­hrunið 2008. Við höf­um því miður á góðum grunni að byggja.

Til að auka ár­ang­ur af at­vinnu- og virkni­miðlun þarf líka mark­viss­ar aðgerðir til að hvetja fólk áfram við að leita sér vinnu, koma upp færni­brúm, nýta raun­færni­mat og þau nám­skeið sem Vinnu­mála­stofn­un býður upp á. Einnig þarf að hefja sam­tal við Vinnu­mála­stofn­un um hvers kon­ar nám­skeiðum þörf er á, til að styðja fólk bet­ur til starfs­leit­ar.

End­ur­skoðum virkniúr­ræði í þágu not­enda

Við samþykkt­um líka í borg­ar­ráði á fimmtu­dag að end­ur­skoða átaks­verk­efni borg­ar­inn­ar til þess að þróa virkniúr­ræði bet­ur. Þar er innifal­in til­laga um sam­starf við Hug­arafl um end­ur­hæf­ingar­úr­ræði fyr­ir óvinnu­færa ein­stak­linga sem lengi hafa þegið fjár­hagsaðstoð. Vel­ferðarsvið Reykja­vík­ur hef­ur mörg úrræði að bjóða til að efla virkni og styðja við ein­stak­linga, svo sem Kvenna­smiðjuna, Karla­smiðjuna, Grett­i­stak, Tinnu, OPS og Bata­skól­ann.

Með end­ur­skoðun á þess­um átaks­verk­efn­um vilj­um við ná betri yf­ir­sýn yfir starf­sem­ina og þau úrræði sem eru í boði. Þannig getum við bet­ur leiðbeint fólk í rétt úrræði og halda áfram að þróa úrræðin í þágu þeirra sem þurfa á þeim að halda. End­ur­skoðunin mun leiða af sér ein­föld­un og meiri sveigj­an­leika fyr­ir not­end­ur. Í ljósi nú­ver­andi ástands er t.d. þegar ljóst að nú­ver­andi átaks­verk­efni styðja ekki nægj­an­lega vel við þau sem ekki hafa ís­lensku að móðurmáli og bregðast þarf strax við því.

Stönd­um sam­an gegn at­vinnu­leys­inu

Það er okk­ar allra hag­ur að koma í veg fyr­ir lang­tíma ­at­vinnu­leysi. Í því verk­efni þurf­um við að standa sam­an, ríki, sveit­ar­fé­lög, at­vinnu­lífið og fé­laga­sam­tök. En mik­il­væg­ast er það fyr­ir ein­stak­ling­ana sem eru at­vinnu­laus­ir að sjá mögu­leik­ann á nýju starfi og finna stuðning út úr at­vinnu­leys­inu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. janúar 2021