Stöndum með fyrirtækjum

Á síðasta ári rýmkaði Reykjavíkurborg innheimtureglur sínar til að koma til móts við bæði fólk og fyrirtæki sem ættu í erfiðleikum vegna Covid. Hægt var að fá frestun á greiðslu fasteignaskatta og annarra krafna. Nú horfum við upp á að þær frestanir bætast við fyrirliggjandi greiðsluvanda, þar sem tekjur eru ekki farnar að streyma inn.

Því samþykkti borgarráð í gær breytingar á innheimtureglum Reykjavíkurborgar, bæði vegna fasteignagjalda og almennra krafna. Alþingi hefur nú samþykkt að lengja, tímabundið, lögveð  fasteignagjalda af atvinnuhúsnæði úr tveimur árum í fjögur. Það eykur það svigrúm sem hægt er að bjóða upp á við innheimtu. Hægt verður að gera greiðsluáætlun til tveggja ára vegna vanskila á fasteignasköttum atvinnuhúsnæðis, hafi fyrirtæki átt í verulegum rekstrarörðugleikum vegna kórónuveirufaraldurs, hvort sem þau eiga eða leigja húsnæðið. Þessir samningar verða áþekkir þeim sem gerðir voru eftir hrun og sé staðið við samninga verður boðið upp á töluverða lækkun dráttarvaxta.

Greiðslusamningar um fasteignagjöld

Greiðslusamningar um fasteignagjöld síðasta árs geta lengst verið til loka mars 2023, um fasteignagjöld þessa árs til loka mars 2024 og fasteignagjöld næsta árs til loka mars 2025.

Borgarráð samþykkti einnig álíka breytingar fyrir almennar kröfur, þar sem heimilt verður að gera greiðslusamkomulag til 10 mánaða og lækka eða fella dráttarvexti niður, sé staðið við samkomulagið.

Ferðaþjónustan er að vakna

Við sjáum nú að ferðaþjónustan er að vakna úr dvala. Ferðamenn sjást nú í miðborginni. Verslanir sem hafa sérhæft sig í vörum fyrir ferðamenn hafa sumar hverjar opnað aftur. Ég rakst líka á tvær bandarískar stúlkur í bakaríi í Árbænum, sem eru hér á ferðalagi. Því tók ég sem skýru merki um að þessi geiri sé að lifna við aftur. Ferðaþjónustuhjartað mitt tók kipp af gleði og ég var hársbreidd frá því að spyrja „how do you like Iceland?“

Síðastliðið ár hefur verið mjög erfitt fyrir ferðaþjónustuna og önnur þau fyrirtæki sem tengjast ferðaþjónustu sterkum böndum. Það hefur hjálpað mjög til, hvað Íslendingar hafa verið duglegir að ferðast innanlands. Farið í skíðaferðir til Ísafjarðar, Akureyrar og Siglufjarðar í stað Alpanna. Farið í borgarferðir til Reykjavíkur í stað erlendra borga. En við höfum líka horft upp á lokuð hótel og erfiðleika í verslun.

Eftir því sem bólusetningum fjölgar, bæði hér heima og erlendis, mun heimurinn fara aftur á flug. Það er ekki efi í mínum huga að fjölmargir munu velja að koma til Íslands og njóta alls þess sem land og þjóð hefur upp á að bjóða.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. maí 2021