03 júl Reykjavík stendur vel
Geta sveitarfélaga til að veita íbúum sínum þjónustu ræðst fyrst og fremst af skatttekjum sveitarfélagsins og stöðu A-hluta. Öðru hvoru hljóma raddir sem fara villur vegar og lýsa fjármálum Reykjavíkurborgar á versta veg. Í þeirri umræðu er ágætt að hafa í huga að skuldahlutfall A-hluta Reykjavíkurborgar er það lægsta á höfuðborgarsvæðinu. Það þýðir að Reykjavík stendur betur en Garðabær, Seltjarnarnes, Mosfellsbær, Kópavogur og Hafnarfjörður.
Skuldahlutfall Reykjavíkur lægst á höfuðborgarsvæðinu
Skuldir Reykjavíkur eru töluvert lægri en skuldir annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem litið til skuldaviðmiða sveitarstjórnarlaga eða skuldahlutfalls heildarskulda og skuldbindinga. Þetta segja okkur tölur úr ársreikningum sveitarfélaganna fyrir árið 2019 eins og sjá má á töflunni hér til hliðar. Á meðan skuldahlutfall Reykjavíkurborgar er 52% er skuldahlutfall annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu á bilinu 61-108%.
Borgin er vel rekin, með traustan og góðan fjárhag. Þetta birtist enn á ný í síðasta ársreikningi borgarinnar sem Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki ræða, því hann taldi pólitíska umræðu um endurskoðunarstaðla mikilvægari. Sjálfsmynd Sjálfstæðisflokksins er byggð á því að enginn kunni að fara með opinber fjármál nema hann einn. Fjármál verða því að einhverri þráhyggju sem verður sérstaklega vandræðaleg þegar aðrir flokkar, líkt og Viðreisn, sýna að þeim er treystandi fyrir fjármálum.
Umtalsvert meiri eignir borgarinnar
Þeir sem mest vilja gera úr skuldum samstæðu Reykjavíkurborgar, og þar með talið Orkuveitu Reykjavíkur, líta gjörsamlega fram hjá þeim eignum sem koma á móti. Eignir og eigið fé á hvern íbúa Reykjavíkur er umtalsvert hærra en í nokkru öðru sveitarfélagi hérna á höfuðborgarsvæðinu. Eignir á hvern íbúa eru 2,6 sinnum meiri en í Garðabæ, sem er næsteignamest. Eigið fé Reykjavíkurborgar, á hvern íbúa er 2,5 sinnum meiri en í Garðabæ. Allt tal um alvarlega fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar nú er því gjörsamlega úr lausu lofti gripið.
Ákall sveitarfélaganna
Eins og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa bent á í bréfum til ráðherra sveitarstjórnarmála, munu sveitarfélögin á landinu verða fyrir miklu tekjufalli og stórfelldri útgjaldaaukningu vegna efnahagsáfallsins í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Sveitarfélög gera ráð fyrir að samanlögð útgjaldaaukning verði um 50 milljarðar á þessu ári og hinu næsta.
Á þessu ári mun tekjufall sveitarfélaganna birtast strax í lækkuðum útsvarsgreiðslum og mun lægri framlögum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaganna. Samdráttur og atvinnuleysi mun leiða til stóraukinna framlaga til velferðarmála og annarrar grunnþjónustu sveitarfélaga, sem sveitarfélögin verða að standa undir.
Möguleikar sveitarfélaganna til að auka tekjur sínar eru mjög takmarkaðar. Nú hafa einnig birst tilmæli frá ráðherra sveitarstjórnarmála, þar sem sveitarfélög eru hvött til að lækka álagningaprósentu fasteignaskatta. Reykjavíkurborg hefur þegar ákveðið að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og álagning á íbúðahúsnæði í Reykjavík er sú lægsta á Íslandi. En ef ráðherra vill lækka tekjur annarra sveitarfélaga verður hann einnig að koma með lausnir um hvernig eigi að brúa bilið á milli mikilvægrar þjónustu og tekna.
Verjum þjónustu og störf
Á fimmtudag samþykkti borgarráð Reykjavíkur vinnu við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs. Um 75% af rekstri borgarinnar er vegna þjónustu við börn og foreldra vegna leikskóla, grunnskóla og frístundar og á sviði velferðarmála, svo sem gagnvart fötluðum, öldruðum og þeim sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda. Við þær aðstæður sem eru uppi teljum við varhugavert að fara í mikinn niðurskurð til að ná rekstri borgarinnar í jafnvægi og viljum verja mikilvæga þjónustu. Því munum við gera ráð fyrir að Reykjavíkurborg, rétt eins og ríkið, verði rekin með halla á næsta ári.
Ég tel einnig ekki rétt að auka á vanda efnahagslífsins með því að skera niður allar framkvæmdir borgarinnar og auka þannig atvinnuleysið. Einnig þarf að læra af mistökum síðustu niðursveiflu, auka fjárfestingu og verja viðhald bygginga til að skapa ekki enn dýrari vanda fyrir framtíðina.
Reykjavíkurborg er með traustan og góðan fjárhag og því í betri stöðu en mörg sveitarfélög til að takast á við harðan vetur. Við höfum verulegar áhyggjur af þróun efnahagsmála á næstu misserum og viljum gjarna opna og góða umræðu um fjármál sveitarfélaga án upphrópana og sleggjudóma.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. júlí 2020