Strætó Miðborg

Með samvinnu lyftast grettistök

Höfuðborgarsvæðið er eitt atvinnu-og búsetusvæði, þó hér séu mismunandi sveitarfélög. Við sem stjórnum sveitarfélögunum höfum séð hvað samtal og samvinna skiptir ofboðslega miklu máli til að samstilla strengi, í þágu allra sem búa hér og vinna.

Við stöndum nú á ákveðnum tímamótum í samstarfi nokkurra mála, svo sem endurskoðun á stjórn og verkefnum byggðasamlaganna og uppbyggingu ferðaþjónustu með sameiginlegri áfangastaðastofu í samstarfi við atvinnugreinina.

Samræming þjónustu og viðbragða á Covid-tímum hefur gengið einstaklega vel. Þá á höfuðborgarsvæðið allt í afar mikilvægu samstarfi, með ríkinu, í uppbyggingu Borgarlínu sem er mikilvægasta samgönguverkefni okkar tíma.

Stjórnun byggðasamlaga

Við höfum undanfarin tvö ár verið að endurskoða rekstur byggðasamlaganna, sérstaklega Sorpu og Strætó. Mikill hugur hefur verið til að bæta stjórnsýslu þessara byggðasamlaga, meðal annars með það í huga að efla aðkomu þeirra sem sitja í minnihlutum sveitarfélaganna.

Stofnað hefur verið stefnuráð, sem á að vera virkur vettvangur eigenda til að fylgja eftir innleiðingu stefnusáttmála og taka á álitaefnum frá stjórnum byggðasamlaganna. Til að byrja með munu stefnuráðin einnig eiga að móta tillögur að framtíðarskipulagi starfsemi, rekstrarformi og stjórnarháttum byggðasamlaganna.

Með þessu fyrirkomulagi er aukin pólitísk aðkoma bæði meiri- og minnihluta, að þessum mikilvægu fyrirtækjum sem eru í sameiginlegri eigu okkar á höfuðborgarsvæðinu. Í stefnuráði sitja 20 kjörnir fulltrúar og gert er ráð fyrir að minnsta kosti einum úr minnihluta hvers sveitarfélags.

Fyrsti fundur stefnuráðs var í þessari viku, þar sem verið var að ræða Sorpu og úrgangsmál, sem er eitt mikilvægasta loftslagsmál okkar tíma. Því er brýnt að þar sé framtíðarsýnin skýr og við göngum öll saman í takt á höfuðborgarsvæðinu.

Áfangastaðastofa höfuðborgarsvæðisins

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa samþykkt að taka næstu skref í að undirbúa áfangastaðastofu höfuðborgarsvæðisins, í samstarfi við atvinnugreinina. Þetta er nauðsynlegt skref í að móta sameiginlega markaðssetningu og áfangastaðaáætlun til að skilgreina höfuðborgarsvæðið allt sem áfangastað ferðaþjónustu.

Þetta er í fyrsta sinn sem sveitarfélögin og atvinnugreinin vinna sameiginlega að slíku verkefni, að forskrift markaðs- og áfangastaðastofa um allt land.

Meginþorri allra ferðamanna kemur til höfuðborgarsvæðisins og sá tími sem þeir dvelja á höfuðborgarsvæðinu hefur lengst. Tækifæri til að byggja upp ferðaþjónustu á svæðinu öllu eru mikil og á það við um öll sveitarfélögin.

Þau tækifæri sem við sjáum í dag tengjast náttúru og sögu, svo sem í uppbyggingu útivistar og skíðasvæða, við Hvaleyrarvatn og Gróttu. Eða tengt Gljúfrasteini og Bessastöðum. Einnig eru mikil tækifæri í fyrirtækjum eins og Sky Lagoon. Þetta eru þau tækifæri sem við sjáum í dag, en eflaust eiga mun fleiri eftir að myndast.

Sveitarfélögin og aðilar í ferðaþjónustu hafa því töluverða hagsmuni af því að samnýta krafta sína, til að sýna fram á þá ótrúlegu kosti sem ferðamönnum bjóðast á höfuðborgarsvæðinu öllu.

Samræming á Covid-tímum

Undir hatti almannavarna hafa bæði framkvæmdastjórar sveitarfélaganna og sviðsstjórar, unnið náið saman til að samræma viðbrögð vegna sóttvarna. Þó svo að heilbrigðisráðherra hafi gefið út reglugerðir um hvað megi og megi ekki vegna sóttvarna, þá hefur þurft útsjónarsemi starfsmanna allra sveitarfélaganna, til að aðlaga starf og þjónustu að þeim reglum. Hefur það sérstaklega átt við í skólum, leikskólum og í velferðarþjónustu.

Samræmd viðbrögð hafa líka átt við, til dæmis um rekstur sundlauga og íþróttahúsa.Það mikla samtal sem þegar hefur orðið, til að bregðast við sóttvarnarkröfum, mun auðvelda allt samstarf og samtal á milli sveitarfélaganna til framtíðar, eins og gerist alltaf með auknum persónulegum tengslum.

Samgöngusáttmáli og svæðisskipulag

Að lokum verður að nefna samgöngusáttmála sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og sameiginlegt svæðisskipulag, sem segir til um það hvernig höfuðborgarsvæðið allt mun vaxa. Þó svo að hvert og eitt sveitarfélag fari með skipulagsmál, þarf skipulagið að tala saman á milli sveitarfélaga.Innan höfuðborgarsvæðisins þarf líka að vera auðvelt að ferðast á milli staða, ekki síst með almenningssamgöngum og virkum samgöngumátum.

Án þeirrar framtíðarsýnar sem við höfum um mun betra kerfi samgangna, þar sem íbúar verða ekki eins bundnir því að nota einkabílinn í allar ferðir, munu samgönguæðar höfuðborgarsvæðisins stíflast. Þá er sama hvað við fjölgum akreinum og mislægum gatnamótum á mjög dýrmætu landi, sem hægt væri að nýta betur í uppbyggingu íbúða. Og sama hvað rafbílum fjölgar, sem taka jafnmikið pláss í umferðinni og aðrir bílar.

Eina lausnin á þessu er að bjóða upp á meira frelsi í samgöngum á nútímalega og þægilega samgöngumáta, með meiri flutningsgetu en bílar bjóða upp á. Þar með talið almenningssamgöngur sem ganga nógu ört til að þú þurfir ekki að kunna tímatöfluna utan að eða bíða lengi eftir næsta vagni, og sem sitja ekki fastar í umferðarhnútum á álagstímum.

Þess vegna er samstarf sveitarfélaganna um Borgarlínu svo mikilvægt. Samstarf sem snýst ekki bara um sérakreinar Strætó, heldur heildræna sameiginlega framtíðarsýn um skipulagsmál höfuðborgarsvæðisins alls.Það skiptir gríðarlega miklu máli að sveitarfélögin eru að ganga í takt með þessi risaverkefni sem þau hafa í fanginu.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. nóvember 2021