08 jún Græna planið til endurreisnar
Við í meirihluta borgarstjórnar höfum nú samþykkt Græna planið, áætlun Reykjavíkurborgar um hvernig umhverfismálin muni leiða efnahagslega viðspyrnu og endurreisn eftir efnahagsáfallið sem Reykjavík, líkt og heimsbyggðin öll, varð fyrir vegna Covid-19.
Græn endurreisn
Endurreisnin þarf að vera græn og sjálfbær. Við viljum skilja við okkur betri borg heldur en við fengum hana í fangið, það á við um lífsgæði, loftgæði og loftslag en líka rekstur borgarinnar. Skilaboðin frá þjóðinni eru líka skýr, eins og fram kom í könnun Gallup sem birt var í vikunni. Þjóðin vill að stjórnvöld taki loftslagsbreytingar jafn alvarlega og áskorarnir vegna Covid-19.
Verðum að bregðast við loftslagsvandanum
Við getum ekki ýtt loftslagsvandanum eða efnahagsáfallinu á undan okkur til komandi kynslóða, heldur er það á okkar ábyrgð að bregðast við þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. Í Covid fylgdum við vísindunum og við sáum hvað stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar voru snögg að bregðast við breyttum aðstæðum. Nú þurfum við að takast á við enn stærri áskorun, sem eru umhverfismálin.
Bættar samgöngur
Í græna planinu eru mikilvæg skref til að auka lífsgæði, loftgæði og bæta loftslag. Þar má nefna bættar samgöngur og uppbyggingu Borgarlínu, bætta innviði fyrir hjól og áherslu á orkuskipti, græna uppbyggingu húsnæðis og umhverfisvæns borgarlands. Það er einnig mikilvægt að halda áfram í ábyrgum og grænum fjárfestingum, t.d. í gegnum græn skuldabréf og með því að láta grænar skuldbindingar vera leiðarljós sjálfbærra verkefna og nýsköpunar. Það þarf einnig að hefja samtal við atvinnulífið, ekki síst ferðaþjónustuna, um hvernig við getum staðið saman í því að byggja upp borgina okkar á umhverfisvænan hátt.
Íslendingar skilja alvöruna og skilja að aðgerðirnar sem þörf er á til að sporna við loftslagsbreytingunum eru á það stórum skala að þær þurfa að ná til allra anga samfélagsins. Það þarf að bregðast við umhverfisvandanum af festu og sú festa þarf að vera sýnileg í ákvörðunum borgarinnar. Atvinnulífið, fólk og opinberir aðilar, í okkar tilviki Reykjavíkurborg, eiga að standa saman að því að reisa okkur við eftir Covid og endurreisnin á að vera græn.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júní 2020