Vöxtur atvinnulífs og borgar fer saman

Reykjavík setti sér markmið í upphafi COVID-faraldursins um að standa með fólkinu og fyrirtækjunum í borginni. Með fjárhagsáætlun fyrir næsta ár höldum við áfram á þeirri braut. Í fyrsta sinn leggur borgin fram fjármálastefnu til 10 ára, fjárfestingarstefnu og sóknaráætlun undir heitinu Græna planið sem sýnir stór skref Reykjavíkur upp úr samdrætti og vaxandi atvinnuleysi.

Sóknaráætlunin sýnir að ekki verður brugðist við með stórfelldum niðurskurði eða hækkun skatta. Það verður hagrætt í rekstri og fjárfestingar eiga að leiða til sparnaðar til framtíðar. Líkt og Viðreisn lofaði í kosningabaráttunni 2018, munu fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði lækka á komandi ári.

Við lækkum álögur á fyrirtæki í Reykjavík til að bregðast við erfiðu ástandi þeirra. Borgin verður af tæplega hálfum milljarði í tekjum vegna þessa, á sama tíma og bregðast þarf við miklu tekjufalli og auknum útgjöldum vegna atvinnuleysis. En einmitt vegna vaxandi atvinnuleysis þurfa borgin og atvinnulífið að standa saman að því að fjölga atvinnutækifærum fyrir borgarbúa. Vöxtur atvinnulífsins og borgarinnar fer saman.

Fulltrúum atvinnulífsins var nýlega boðið á fund borgarráðs til að ræða hvernig við getum gengið í takt að þessu markmiði. Í næstu viku hef ég svo boðið fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar til að við getum öll gengið í takt.

Ég hef heyrt ákall um bætt samskipti Reykjavíkur og atvinnulífs, um hraðari afgreiðslu erinda og minna flækjustig. Við undirbúum nú að stofna formlegan samstarfsvettvang við atvinnulífið. Stór skref verða tekin í stafrænni þróun til að auka skilvirkni og einfalda aðgengi.

Líkt og með þjónustu sem við veitum íbúum viljum við veita fyrirtækjum skjóta skilvirka og hnökralausa þjónustu. Við viljum eiga í góðu og gagnvirku samtali við atvinnulífið og tryggja að til borgarinnar komi öflug fyrirtæki. Nú sem aldrei fyrr en mikilvægt að borgin og atvinnulífið vinni saman.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. desember 2020