Þórdís Lóa Þórhallsdóttir borgarstjórn

Verum undirbúin fyrir langhlaup

Við erum núna á fyrstu dögum Covid-faraldursins á Íslandi. Líkt og einn af okkar helstu mönnum þessa dagana, Víðir Reynisson sagði í Bítinu í gær, verður þetta vonandi þannig að við „tökum skemmtilega helgi fyrstu helgina í júlí og það verður grill um allt land.“ Það er því ljóst að við erum stödd í miðju langhlaupi sem mun taka á fólk og fyrirtæki með víðtækum efnahagslegum afleiðingum.

Höldum órofinni þjónustu

Reykjavíkurborg þarf fyrst og fremst að tryggja, eins og hægt er, að halda samfélaginu gangandi. Að velferðarsvið haldi órofinni þjónustu fyrir viðkvæma hópa; börn, aldraða og fatlaða. Að börn og ungmenni geti sótt skóla og leikskóla. Neyðarstjórn borgarinnar hefur unnið að því að tryggja þessu órofnu þjónustu, í samvinnu við sóttvarnarlækni og almannavörnum og mun halda því áfram.

Áfall á hagkerfið

Fyrst í stað munu efnahagslegu áhrifin birtast fyrirtækjum í ferðaþjónustu og tengdum greinum, svo sem verslun og þjónustu vegna þess að lönd eru að lokast og ferðamönnum að fækka. Fljótlega munum við einnig sjá neikvæðar efnahagslegar afleiðingar vegna nauðsynlegra tímabundinna sóttvarnaraðgerða, svo sem vegna víðtækra sóttkvía. Þetta áfall á hagkerfið kemur í kjölfar kólnunar síðustu mánaða.

Neyðarstjórn Reykjavíkur setti strax af stað teymi, undir forystu fjármálastjóra, til að hefja nauðsynlega greiningu til að undirbúa ákvarðanir og áætlanagerð. Áætlanagerðin þarf að vera vel undirbúin, því hættan er að í krísuástandi sé stokkið á töfralausnir, frekar en að finna vel ígrundaðar lausnir. Í borgarstjórn í dag töluðu fulltrúar allra flokka um mikilvægi samstöðu á tímum sem þessum. Undir það tek ég. Við þurfum öll að standa saman og vera jákvæð gagnvart góðum hugmyndum.

Þarf að meta áhrif faraldursins til skamms og langs tíma

Borgarráð mun skipa starfshóp til að skipuleggja frekari viðbrögð Reykjavíkurborgar við efnahagslegum afleiðingu á grunni þeirrar niðurstöðu sem teymi neyðarstjórnar hefur unnið að. Það þarf að meta efnahagsáhrif faraldursins á rekstur og fjárhag borgarinnar, bæði til skamms og langs tíma. Það þarf að lista upp og greina mögulegar mótvægisaðgerðir til að til verði efnahagsleg viðbragðsáætlun sem styðji við fólk og fyrirtæki í borginni. Þau viðbrögð mega ekki vera handahófskennd.

Sveitarfélög þurfa að vinna saman að góðum lausnum

Sveitarfélögin þurfa líka að vinna saman að viðbrögðum. Því eru unnið að samstilltum viðbrögðum bæði viðbragða allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og að samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og við ríkisstjórn og starfshóp ráðuneytisstjóra um efnahagsleg og fjárhagsleg viðbrögð við Covid-19. Næstu vikurnar þurfum við að vinna saman að góðum lausnum.

Greinin birtist fyrst á Vísi 17. mars 2020