20 apr Þjónusta við fingurgómana
Við ætlum að sækja um á ungbarnadeild fyrir yngsta barnið. Á yfirlitiskorti í Reykjavíkurappinu yfir alla leikskóla borgarinnar sjáum við strax hvar biðlistinn er stystur. Við sækjum því um á leikskóla sem er í nálægð við vinnu en ekki heimili, til að barnið komist fyrr að. Um leið er hakað við ósk um að það flytjist við fyrsta tækifæri í hverfisleikskólann, þar sem miðjubarnið er fyrir.
Í appinu rennum við yfir matseðilinn í grunnskólanum fyrir næstu viku. Við staðfestum hvenær elsta barnið ætlar að borða og merkjum við í dagatalið okkar hvenær eigi að senda það með nesti. Við erum búin að haka við að miðbarnið sé með óþol og ofnæmi fyrir hinu og þessu og þess vegna fær það sérfæði í leikskólanum.
Undir upplýsingum um mat getum við líka pantað matinn fyrir afa og ömmu, sem muna ekki alltaf eftir því að panta sér mat. Því er gott að vera komin með umboð fyrir þau. Panta kjöt-, fisk- og grænmetismáltíðirnar sem þau fá sendar heim.
Fjárfesting í tækni snýst um stafræna þjónustu
Reykjavíkurborg er ekki búin að þróa þetta app. En þangað viljum við fara, hvort sem það verður app eða eitthvað annað. Að það verði einfalt að óska eftir þjónustu, fylgjast með stöðu mála og að eiga í samskiptum við borgina. Þess vegna höfum við ákveðið að setja 10 milljarða í stafræna þjónustu borgarinnar á næstu þremur árum.
Sem hluta af Græna planinu ákváðum við að hraða stafrænni umbyltingu Reykjavíkurborgar. Við forgangsröðun stafrænna verkefna horfum við sérstaklega til þess hvort lausnin muni leiða til hagkvæmari rekstrar hjá borginni og fækka handtökum og margskráningum. Í kjölfarið getum við svo nýtt starfskrafta borgarinnar enn betur. Það sáum við þegar umsókn um fjárhagsaðstoð var var gerð stafræn og starfsmenn gátu einbeitt sér enn frekar að einstaklingsbundinni ráðgjöf. Þannig getur stafræn framtíð haft margfeldisáhrif á þá þjónustu sem hægt er að veita.
Tökum framtíðinni fagnandi
Við viljum fjárfesta í framtíðinni. Þeirri framtíð þar sem borgarbúar þurfa ekki að mæta á einhvern sérstaka stað, á sérstökum tíma og bíða eftir að sérstakur starfsmaður verði laus til viðtals. Framtíð þar sem hægt er að óska eftir þjónustu þar sem okkur hentar, hvort sem við erum heima hjá okkur, að bruna um borgina í Borgarlínunni eða í göngutúr um Elliðaárdalinn. Og þegar ekki er hægt að leysa málin á svo einfaldan hátt, þá sé það einfalt að óska eftir að starfsmaður hafi samband til að leysa úr málum.
Stafræn umbreyting Íslands er rétt að hefjast. Til að hún heppnist sem best á Reykjavíkurborg í samstarfi við Stafrænt Ísland, ríkið og önnur sveitarfélög. Með samstarfi getur hið opinbera sparað þróunarkostnað en veitt íbúum bestu mögulegu lausnir. Þar vill Reykjavík vera í fararbroddi og veita þjónustu á forsendum notenda en ekki kerfisins sjálfs.