19 feb Sundabraut vinnur með þéttingu byggðar
Þau sem eldri eru en tvævetur eru kannski hætt að hlusta á loforð um Sundabraut, nýja leið út úr Reykjavík sem eykur bæði aðgengi að borginni og út úr henni. Í hjarta mínu trúi ég því að tekin hafi verið stór skref í átt að Sundabrautinni með nýrri félagshagfræðigreiningu sem sýnir hversu hagkvæmt verkefni Sundabraut er, hvort sem farið verður í brú eða göng.
Göng eða brú?
Hlutverk Reykjavíkurborgar í því verkefni er að verja hagsmuni borgarbúa, ekki síst þeirra sem verða fyrir áhrifum af Sundabrautinni með aukinni umferð í nærumhverfinu. Og fá skipulag um Sundabraut samþykkt sem allir hagaðilar fá tækifæri til að hafa áhrif á. Skipulagið þarf auðvitað að taka tillit til þeirrar byggðar sem er í Reykjavík, bæði hvað varðar Vogana en ekki síður Grafarvog, þannig að Grafarvogsbúar hafi áfram gott aðgengi að útivistarsvæði sínu við ströndina.
Göng eða brú hafa hvor um sig kosti og galla. Falleg brú gæti orðið eitt helsta einkenni borgarlandsins, sem yrði líka hægt að hjóla eða ganga yfir, en göng trufla síður umhverfi þeirra sem búa nálægt Sundabraut. Þá þarf að meta áhrif brúar eða ganga á Sundahöfn og notkun hennar sem stórskipahafnar.
Tengir Reykjavík betur saman
Einn helsti kostur Sundabrautar yrði að tengja hverfi Reykjavíkur betur saman á sama tíma og hún getur styrkt þéttingu byggðar. Grafarvogur og Kjalarnes myndu með Sundabraut færast töluvert nær miðborginni. Umferðarálag myndi dreifast meira á einhverjum stöðum, þótt Sundabraut hefði lítil áhrif á öðrum.
Miklar breytingar eru að verða á Ártúnshöfðanum, þar sem atvinnuhúsnæði er að víkja fyrir íbúðarhúsnæði. Þetta er mjög eðlileg þróun í vaxandi borg; að landfrekt atvinnuhúsnæði flytjist þangað sem landsvæðið er rýmra og ódýrara á meðan verðmætara land er byggt upp sem ný hverfi. Þetta sjáum við, auk Ártúnshöfðans, á Kársnesinu í Kópavogi og í Hraununum í Hafnarfirði.
Styrkir verulega nýtt iðnarsvæði á Esjumelum
Lítill og meðalstór iðnaður á samt að eiga sér stað innan borgarmarkanna og gott svæði er fyrir hendi á Esjumelum. Samkeppnishæfni Esjumelanna myndi styrkjast verulega við að fá Sundabraut og tengjast þannig Reykjavík betur. Með þægilegri fjarlægð getur Reykjavík stutt við fjölgun fyrirtækja sem annars gætu fundið sér stað í nágrannasveitarfélögunum.
Ein stærsta breytingin yrði svo á umferð þungaflutninga, sem myndu í mun minna mæli skríða upp Ártúnsbrekkuna og í gegnum Mosfellsbæ á leið vestur og norður um land. Í greinargerð Mannvits og Cowi kemur fram að sendiferðabílar og þungaflutningar myndu spara um 30 þúsund km í akstri á ári, miðað við að ferðum fjölgaði ekki, með því að fara beinni leið upp á Kjalarnes.
En við viljum ekki bara færa mengunina og umferðarvandann úr Mosfellsbæ og í Vogana eða Grafarvog. Því þarf að undirbúa Sundabraut vel og gera hana þannig úr garði að umhverfisáhrifin verði sem minnst. Því er næsta skref að vinna umhverfismat og fara í víðtækt samráð við íbúa í nærumhverfinu og aðra hagaðila.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. febrúar 2022