24 apr Tölum um atvinnulífið í borginni
Reykjavíkurborg á í samtali við atvinnulíf og borgarbúa alla til að undirbúa atvinnu- og nýsköpunarstefnu. Við ætlum okkur að skilja betur þarfir og væntingar atvinnulífsins í borginni. Við viljum að atvinnulífið fái, líkt og íbúar, eins skjóta, skilvirka og hnökralausa þjónustu og unnt er. Við viljum snjallvæða þjónustu við atvinnulífið eins og aðra þjónustu. Og við viljum að Reykjavíkurborg laði til sín og haldi hjá sér þróttmiklum fyrirtækjum.
Sterk skilaboð frá atvinnulífinu
Áður en vinna við atvinnustefnuna hófst stóð ég fyrir samtali við atvinnulífið á allmörgum vinnufundum í Höfða, þar sem rætt var við fulltrúa frá ýmsum kimum atvinnulífsins, svo sem þjónustu og verslun, klasasamfélaginu, iðnaði og ferðaþjónustunni. Markmiðið var að hlusta á atvinnulífið og kalla eftir hugmyndum um hvernig Reykjavík bætir samtal og samstarf, upplýsingamiðlun og þjónustu.
Það sem við heyrðum voru sterk skilaboð um að auka samtal og samvinnu, efla traust, auka aðgengi og efla miðlun upplýsinga, fækka skrefum og stytta boðleiðir. Einnig væri mikilvægt að efla samkeppnishæfni Reykjavíkur til að laða að borginni erlend fyrirtæki og Íslendinga sem hafa kosið að vinna í erlendum borgum. Því þyrfti borgin að bjóða upp á góða þjónustu fyrir íbúa, góðar almenningssamgöngur og mannlíf. Reykjavík þyrfti að vera aðlaðandi kostur til að búa í og muna að hún er líka í samkeppni um fólk og fyrirtæki við erlendar borgir en ekki bara við nágrannasveitarfélögin.
Með þessi skilaboð í farteskinu hófst vinnan við atvinnu- og nýsköpunarstefnu. Við völdum að hafa með okkur í stýrihóp, auk borgarfulltrúa, tvo góða fulltrúa sem hafa góða þekkingu á atvinnu og nýsköpun. Markmiðið er að leggja til framtíðarsýn og stefnu fyrir atvinnugreinar, atvinnuhætti og nýsköpunarumhverfi Reykjavíkurborgar.
Atvinnulíf á að dafna um alla borg
Áherslur okkar við mótun stefnunnar eru að hún horfi til sjálfbærrar aukningar hagsældar og lífsgæða, m.a. í gegnum nýsköpun. Skilvirkir innviðir eigi að skapa forsendur fyrir lágum viðskiptakostnaði og öflugri samkeppni í þjónustu við íbúa. Hugað verði að því að fjölbreytt atvinnulíf dafni um alla borg en einnig að til verði þekkingar- og vaxtarsvæði. Þjónusta borgarinnar við atvinnulífið sé skilvirk og gagnsæ.
Við viljum að stefnan stuðli að samstarfi aðila sem gegna lykilhlutverki í atvinnulífi og nýsköpun, svo sem klasasamtaka. Í því verði horft bæði til innlendra og erlendra aðila, til dæmis í gegnum Evrópusamstarf.
Verum samkeppnishæf við erlendar borgir
Stefnan er að horfa til þess hvernig hægt sé að tryggja nægt framboð af kraftmiklu fólki í Reykjavík, sem hefur þekkingu og reynslu til að leysa knýjandi áskoranir samtímans og skapa fleiri alþjóðleg vaxtarfyrirtæki. Við viljum skapa aðstæður fyrir fleiri CCP, Marel og Össur til að verða til í Reykjavík og þroskast. Við viljum líka að þessi fyrirtæki dafni í Reykjavík en flytji ekki úr landi því vaxtarmöguleikarnir séu betri annars staðar.
Nú stendur yfir frekara samráð við hagaðila og borgarbúa alla. Það er fjölbreytt atvinnulíf í borginni, með mismunandi þarfir og væntingar þegar kemur að samskiptum við Reykjavíkurborg. Í samráðsgátt Reykjavíkurborgar, betrireykjavik.is, geta allir komið að sinni framtíðarsýn á atvinnu- og nýsköpunarstefnu borgarinnar til 2030. Einnig höfum við áhuga á að heyra hvaða borgir þið teljið vera alþjóðlegar fyrirmyndir í málefnum atvinnulífs og nýsköpunar og hvað það er sem gerir þessar borgir að fyrirmyndarborgum. Reykjavík vill vera framúrskarandi og læra af þeim bestu.
Við viljum heyra í þér
Með góðri atvinnustefnu náum við fram atvinnuþróun sem allir hagnast á. Atvinnuþróun sem miðar að því að auka lífsgæði. Aukinni framleiðni fyrirtækja sem geta þá greitt hærri laun. Hærri laun bæta hag heimila. Þau gera sveitarfélögum líka auðveldara fyrir að efla innviði og þjónustu.
Nú eru víða erfiðir tímar þar sem 25 þúsund einstaklingar eru skráðir atvinnulausir eða með skert vinnuhlutfall. Ýmis fyrirtæki hafa átt erfitt vegna heimsfaraldurs og sóttvarna. Út úr þessum vanda þurfum við að vaxa. Ef þú telur þig hafa lausnina um hvernig Reykjavíkurborg getur stuðlað að betri atvinnuþróun með góðri atvinnustefnu viljum við heyra í þér á betrireykjavik.is.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. apríl 2021