Ár samstöðu og seiglu

Þetta er ár sem verður lengi í minnum haft. Margir munu jafn­vel minn­ast þess sem annus horri­bilis. Þetta er árið sem hófst á snjó­flóðum á Flat­eyri og í Súg­anda­firði. Sem betur töp­uð­ust þar ein­ungis ver­ald­legar eignir og mann­björg varð. En umhverfið okkar var stað­ráðið í að minna okkur á að það eru ekki alltaf mann­fólkið sem ræður för. Umhverfið hélt áfram að minna á sig með óveðri og rauðum við­vör­un­um, jarð­hrær­ingum við Grinda­vík, heims­far­aldri sem hefur sett líf okkar nokkuð úr skorð­um. Nú síð­ast með aur­skriðum á Seyð­is­firði.

Að finna það hvernig umhverfið og nátt­úran grípur í taumana og setur okkur í hættu, án þess að geta rönd við reist skapar skapar skilj­an­legan ótta. En sem sam­fé­lag getum við ekki látið stjórn­ast af ótta. Við höfum brugð­ist við með sam­stöðu með íbúum Flat­eyr­ar, Grinda­víkur og Seyð­is­fjarðar í gegnum hremm­ingar þeirra. Við höfum sýnt seiglu okkar í gegnum heims­far­ald­ur­inn. Við kunnum að standa í röð, þvert á allar mýt­ur. Við sýnum að við látum hags­muni ann­arra en okkar sjálfra skipta máli. Við höfum sýnt sam­kennd og að við séum til­búin til að verja þau okkar sem veik­ari eru fyr­ir. Okkur bar einnig gæfa til að láta við­brögð almanna­varna stýra okkur í gegnum þetta ár. Við­brögðin hér hafa verið minni póli­tík og meiri fag­mennska sem gefið hafa okkur öflug og örugg við­brögð við krís­um.

Neyð­ar­stjórn Reykja­vík­ur, þar sem ég á sæti sem vara­maður borg­ar­stjóra, hefur verið starf­andi nán­ast allt árið. Í gegnum starf neyð­ar­stjórn­ar­innar hef ég fundið hve mik­il­vægt það er að hafa til­búnar neyð­ar­á­ætl­anir til að styðj­ast við í gegnum áföll. Ég hef líka fundið það hvað það er mik­il­vægt að hafa í stafni fólk sem er skap­andi og fljótt að finna lausnir við nýjum vanda­málum sem koma upp með skömmum fyr­ir­vara.

Það þarf póli­tíska for­ystu

Auð­vitað skiptir líka máli að sýna póli­tíska for­ystu á krísu­tím­um. Vekja von í brjóstum og draga úr ótt­an­um. Þegar kemur að heims­far­aldri hefur það verið hlut­verk okkar í sveitarstjórnum að tryggja að leið­bein­ingum sótt­varna sé fylgt og hvetja til þess að þvo, spritta og halda tveggja metra reglu. Þegar kemur að efna­hags­legum við­brögðum höfum við svo getað sýnt for­ystu.

Allar áætl­anir árs­ins breytt­ust og í vor stóðum við í borg­inni öll saman og kynntum 13 aðgerða plan sem var ein­róma sam­þykkt í borg­ar­ráði. Við vissum ekki þá hve lengi kór­ónu­veiran myndi hafa áhrif á til­ver­una. Við von­uð­umst eftir hinu besta en vorum við­búin hinu versta með því að stilla upp mis­mun­andi sviðs­mynd­um. Aðgerða­planið snérist svo að því hvernig við vildum styðja við fjöl­skyldur og fyr­ir­tæki í borg­inni á erf­iðum tím­um. Auðvitað er það fólkið sem finnur fyrir afleið­ing­un­um.

Öfl­ug, græn við­spyrna

Nú í lok árs sýndum við enn fremur hvernig við stefnum á öfl­uga við­spyrnu til að styðja fólk í gegnum erfitt efna­hags­á­stand, með því að sam­þykkja fjár­hag­á­ætlun fyrir næsta ár sem gerir ráð fyrir meiri fram­kvæmdum en nokkur sinni fyrr. Við sam­þykktum líka Græna planið sem útlistar for­gangs­röðun fram­kvæmd­anna. Við ætlum okkur að taka stór græn skref upp úr efna­hag­skrepp­unni. Það mik­il­væg­asta nú er að skapa aðstæður til að draga úr atvinnu­leysi. Fyrir ein­stak­ling­ana sem missa vinn­una og fyrir sam­fé­lagið allt. Við ætlum líka að nota tæki­færið, stuðla að nýsköpun og stór­bæta staf­ræna þjón­ustu borg­ar­inn­ar. Í þess­ari staf­rænu bylgju hefur atvinnu­lífið tekið gríð­ar­lega stór stökk og hið opin­bera má ekki vera þar eft­ir­bát­ur.

Sólin skein í sumar og mun skína aftur

Við vildum líka reyna að gera sum­arið aðeins skemmti­legt, eins og aðstæður leyfa, með því að hafa líf í borg­inni – þrátt fyrir að virða tvo metrana. Við lögðum því áherslu á að styðja hverfin til að vera með hverfa­há­tíðir og líf og fjör. Við fórum líka í átak til að lífga upp á mið­borg­ina með því að vera með marga fjöl­breytta og litla við­burði, frekar en að hvetja margt fólk til að safn­ast sam­an. Við hvöttum Íslend­inga til að sækja borg­ina heim, fara út að borða og njóta lífs­ins á góðu sumri. Enda var sum­arið gott. En svo kom haustið og far­ald­ur­inn gerði okkur aftur lífið erf­ið­ara.

Á nýju ári munum við einnig þurfa að takast á við erf­ið­leika. Við munum þurfa að sýna póli­tískt þor til að verja hug­sjónir okkar um frelsi og jafn­rétti, sem oft verða að átaka­málum í krepp­um. Þá verður því haldið á lofti „að nú sé ekki rétti tím­inn“, þar sem efna­hags­legir erf­ið­leikar trompi allt ann­að. En sólin mun birt­ast okkur aft­ur, hátt á lofti og þangað til megum við ekki gleyma okkur í myrkr­inu.

Sam­eig­in­leg verk­efni á höf­uð­borg­ar­svæð­inu

Í sveit­ar­stjórn­ar­málum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu munum við líka þurfa að sýna þor og dug til að halda áfram að standa saman að sam­eig­in­legum verk­efn­um. Tvö þeirra vil ég sér­stak­lega nefna. Ann­ars vegar eru það sam­göngu­mál­in, þar sem öll sveit­ar­fé­lög á höf­uð­borg­ar­svæð­inu hefur sam­ein­ast um sam­göngusátt­mála og þróun Borg­ar­lín­unnar og í þeim til­gangi stofnað með rík­inu Betri sam­göngur ohf. Við verðum að gera það auð­veld­ara fyrir fólk að velja sér þann sam­göngu­máta sem það kýs helst og snúa af þeirri braut að öll hönnun sam­göngu­mann­virkja snú­ist um einka­bíl­inn.

Á þessu ári höfum við einnig sam­eig­in­lega hafið end­ur­skoðun á byggða­sam­lögum höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins. Leið­ar­ljósið er að ein­falda strúkt­úr­inn, tengja byggða­sam­lögin betur við sveit­ar­fé­lögin og gera stjórnun á þeim fag­legri og ábyrgð skýr­ari. Með sam­stöðu þvert yfir sveit­ar­fé­lög og þori getum við stýrt báðum þessu mik­il­vægu verk­efnum í höfn

Með áfram­hald­andi sam­stöðu, seiglu og þori verður árið 2021 að góðu ári, árinu sem við stígum upp úr hremm­ingum og göngum til hnar­reist til fram­tíð­ar.

Gleði­leg jól og far­sælt kom­andi ár, kæru les­end­ur.

Höf­undur er odd­viti Við­reisnar og for­maður borg­ar­ráðs

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 2. janúar 2021