20 mar Samstaða í langhlaupi
Covid-19 faraldurinn er nú tekinn að dreifa sér víðar og fjölgar þeim daglega sem greindir eru smitaðir. Þetta verður langt ferðalag. Í þessu langhlaupi, sem mun taka á fólk og fyrirtæki með víðtækum afleiðingum, munum við þurfa að standa saman til að vinna að hag allra, ekki síst viðkvæmari hópa.
Frá því að óvissustigi var lýst yfir, hefur starfsfólk Reykjavíkurborgar unnið sleitulaust að því að tryggja, eftir fremsta megni, órofna þjónustu borgarinnar. Það er forgangsverkefni sveitarfélagsins að tryggja þjónustu þrátt fyrir samkomubann og lokanir, í samvinnu við sóttvarnalækni og almannavarnir. Starfsfólk okkar hefur brugðist fumlaust við þessu einstaka ástandi og af miklu æðruleysi og er ég þakklát þessu góða fólki.
Reykjavík þarf að vera tilbúin
Reykjavíkurborg þarf einnig að vera tilbúin að bregðast við fjárhagslegum og efnahagslegum áhrifum. Því setti Neyðarstjórn Reykjavíkur strax af stað teymi, undir forystu fjármálastjóra, til að greina áhrifin og undirbúa ákvarðanir og breytta áætlanagerð. Greindar hafa verið þrenns konar sviðsmyndir sem byggja á mismunandi tímaramma faraldursins. Það er mikil óvissa um hvernig hann mun þróast í heiminum öllum og þarf Reykjavíkurborg að búa sig undir alla möguleika, þó að við vonumst öll til að áhrifin verði til skamms tíma.
Þverpólitísk umræða í borgarráði
Í borgarráði í gær voru ræddar þverpólitískar hugmyndir að viðbrögðum Reykjavíkurborgar til að koma til móts við fólk og fyrirtæki. Það skiptir sköpum að ná að verja störfin og takmarka atvinnuleysi. Það þarf að aðstoða fyrirtæki sem hafa nú tímabundið misst tekjur sínar. Það þarf einnig að aðstoða þá einstaklinga sem munu koma til með að missa vinnu sína. Þegar faraldurinn líður hjá þarf Reykjavíkurborg svo að vera tilbúin með átaksverkefni og nýja forgangsröðun framkvæmda. Áætlanir um viðbrögð þurfa að byggja á vel ígrunduðum lausnum, í stað töfralausna. Öll borgarstjórn þarf nú að sýna ábyrgð og tala saman um ástandið af yfirvegun og ábyrgð og standa saman að góðum lausnum