09 okt Við þurfum að gera þetta saman
Sveitarfélögin hafa ákveðið að starfa saman á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga til að taka stór stafræn skref í þágu íbúa. Í þessu samstarfi tekur Reykjavíkurborg þátt. Enda hefur borgin af miklu að miðla og hefur verið í fararbroddi allra sveitarfélaga á þessu sviði.
Önnur sveitarfélög munu svo njóta þeirrar þekkingar og reynslu sem Reykjavík hefur, þó svo að hvert sveitarfélag fyrir sig muni þurfa að fara í gegnum sína ferla og geti ekki tekið lausnir Reykjavíkurborgar upp hráar. Þetta kom mjög skýrt fram á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna nú fyrir helgi.
Styrkleiki Reykjavíkurborgar liggur ekki síst í því að borgin hefur ákveðið að leggja 10 milljarða í stafræna umbreytingu á næstu árum til að vera viðbúin þeim miklu breytingum sem eru að eiga sér stað.
Fyrstu skrefin
Þessi umbylting er þróun sem mun eiga sér stað til framtíðar. Við munum ekki vakna einn daginn og telja stafrænu þróuninni lokið. Tæknin mun halda áfram að þróast og sveitarfélögin þurfa að þróast með, líkt og aðrir. Stafræna umbyltingin sem við erum að tala um í dag er því bara fyrstu skrefin í mjög langri vegferð sem ekki verður hægt að mæla í kjörtímabilum.
Stafræn umbylting snýst ekki bara um að taka umsóknareyðublöð og setja þau á vefinn. Það þarf að undirbúa það að tölvukerfi geti talað saman, að upplýsingar séu sóttar á miðlægan stað í stað þess að slá þær inn úr einu kerfi í annað. Notendabúnaðurinn þarf að vera fyrir hendi og hugbúnaðarleyfin. Það þarf að endurhugsa ferla með íbúa og aðra notendur í huga, og hvernig notendur vilja nálgast upplýsingar eða þjónustu. Niðurstaðan verður svo aukin sjálfvirknivæðing, til að við getum öll nýtt símann okkar betur.
Notendavæn þróun
Sveitarfélögin þurfa að hlusta á íbúa sína um þarfir og áherslur. Hvernig hægt sé að gera þjónustu notendavænni og veita hana á forsendum íbúa, frekar en eftir því sem þægilegt er fyrir sveitarfélagið. Stafræna þróunin mun líka eiga sér stað í samtali við sérfræðinga, innlenda og erlenda.
Sérfræðingar óskast á útboðsvef
Undir þetta er Reykjavíkurborg tilbúin. Á útboðsvef borgarinnar má núna t.d. finna ósk um þátttöku í gagnvirku innkaupakerfi um þjónustu alls konar sérfæðinga. Frá sérfæðingum í myndbandagerð til sérfæðinga um stefnumótun, hönnun, rekstri tölvukerfa og upplýsingatækni. Einnig er opið útboð um þjónustu sérfræðinga vegna notendamiðaðrar hönnunar. Þetta er samningur sem er opinn öllum fyrirtækjum og geta nýsköpunarfyrirtæki sem og aðrir skráð sig hvenær sem þeim hentar og dregið sig út sömuleiðis.
Þeim sérfræðingum sem hafa áhuga á ákveðnum hugbúnaðarlausnum má benda á útboð um notendavænt starfsumsóknarkerfi Reykjavíkurborgar. Í fljótlegri yfirferð sýndist mér 16 útboð vegna stafrænnar þróunar þegar hafa skilað niðurstöðu bara á þessu ári. Þar á meðal hugbúnaðarlausn vegna eignaumsjónarkerfis borgarinnar.
Tæp 80% af 10 ma. kr. í opinber innkaup
Í innkaupastefnu Reykjavíkurborgar segir að „við innkaup Reykjavíkurborgar sé beitt útboðum, að eins miklu leyti og unnt er og hagkvæmt þykir og að hlutur útboða í heildarinnkaupum Reykjavíkurborgar aukist“. Í samræmi við innkaupastefnuna hefur Reykjavíkurborg metið hvar hagkvæmt er að beita útboðum í stafrænni umbyltingu borgarinnar. Á þessu ári eru 3,2 milljarðar áætlaðir í stafræna umbreytingu. Þar af fari 2,7 milljarðar í verkefni sem fara í gegnum opinber innkaup. Af alls 10 milljörðum er áætlað að tæp 80% fari í gegnum opinber innkaup.
Einhver hluti stafrænnar þróunar, innleiðingar og greiningarvinnu mun eiga sér stað innan borgarinnar, eftir því sem þykir hagkvæmara og betur farið með skattfé borgarbúa. En útboðum verður beitt og keypt þekking og reynsla af litlum sem stórum fyrirtækjum til að vinna að verkefnum í þágu borgarbúa, sem vonandi mun svo skila sér til íbúa annarra sveitarfélaga líka.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. október 2021