23 feb Nútímalegt lýðræði
Ábak við skemmtilegt og opið samfélag er heilbrigt lýðræði. Við viljum öll hafa eitthvað að segja um það hvernig samfélagi okkar er stýrt og hvernig hagsmunum okkar er best varið. Með tímanum breytast kröfur til lýðræðisins, þótt grunnurinn sé alltaf sá sami. Landslagið í íslenskri pólitík hefur tekið stakkaskiptum síðan á seinustu öld og tel ég það vera í takt við þær kröfur sem nútímamanneskjan hefur til stjórnvalda. Tími fjórflokkanna er liðinn – við viljum margar raddir, við viljum samstarf, skoðanaskipti og málamiðlanir.
Meirihlutinn í borginni er gott dæmi um hvernig þetta getur virkað. Við unnum gott samkomulag í upphafi kjörtímabilsins sem byggir á skýrri sameiginlegri sýn á framtíð og þróun borgarinnar.
Það þýðir ekki að við séum öll eins og sammála um allt, það er af og frá. Meirihlutinn saman stendur af ólíkum flokkum með ólíka einstaklinga innbyrðis en í því felst einmitt styrkurinn okkar. Við ræðum opinskátt saman um þau málefni sem aðgreina okkur og komumst að sameiginlegri niðurstöðu. Við erum, hvert og eitt í meirihlutanum, samkvæm okkar gildum og ýtum á þau málefni sem við brennum fyrir. Og nákvæmlega þannig er vænlegast að vinna að hagsmunum borgarbúa.
Við í Viðreisn höfum verið óþreytandi að tala máli einkaframtaksins og atvinnulífsins, ýta á eftir því að bilið verði brúað milli fæðingarorlofs og leikskóla og leitað leiða til að bæta þjónustu borgarinnar með stafrænum skrefum. Allt þetta, og fleira, hefur verið á forgangslista okkar á meðan við leggjum áherslu á yfirvegaða fjármálastjórnun. Aðrir flokkar hafa haft aðrar áherslur og hefur okkur tekist að stýra skútunni með samvinnuna að leiðarljósi.
Framtíðin leynist í samvinnu marga flokka og við sem leiðum þá vinnu verðum að búa yfir þeirri yfirsýn sem þarf til að sú samvinna beri árangur. Með þekkingu og reynslu í farteskinu langar mig að byggja frjálst og réttlátt borgarsamfélag.