Látum ekki Sig­munda þessa heims villa okkur sýn

Sumarið er tíminn er oft sagt og í ár hef ég verið stað­ráðin í að njóta þess til fullnustu. Eftir CO­VID-19 vorið, sótt­kví og tak­markanir er frelsið svo sætt. Um síðustu helgi, rétt áður en ég hélt með góðum vinum upp á há­lendi, rakst ég á grein Sig­mundar Davíðs Gunn­laugs­sonar, formanns Mið­flokksins um nýja menningar­byltingu.

Ó­borgan­legt yfir­læti og lýð­hyggja ein­kennir greinina þar sem okkur er sagt að réttinda­bar­átta, í þessu til­felli hreyfingar Black Lives Matters, feli í sér aukna kyn­þátta­hyggju. Hann reynir að gera réttinda­bar­áttu þeirra sem vilja bæta heiminn og vinna gegn kúgun og mis­rétti ó­trú­verðuga. Hann ber bar­áttu fyrir mann­réttindum og jafn­rétti saman við skelfi­legt kúgunar­tíma­bil kín­verskra maó­ista, þar sem milljónir voru kúgaðar og fjöldi fangelsaðir eða létust. Þessi söngur þeirra sem hafa völdin og vilja ekki sleppa þeim er gömul saga og ný en það er ekki hægt að sitja hjá og rausa við eld­hús­borðið um lýð­skrumið og vit­leysuna, því svona skrif eru hættu­leg.

Breytum sam­fé­laginu til hins betra

Til að verja mín grunn­gildi, sem borgara­lega frjáls­lynd kona sem trúir á rétt­látt sam­fé­lag, jafn­rétti og al­þjóð­lega sam­vinnu, þá get ég ekki setið á hliðar­línunni og látið mér duga að glotta yfir bullinu í Sig­mundum þessa heims. Í skrifum sem þessum er vegið að þeim heimi sem ég vil verða partur af. Popúl­isminn sem hér birtist heggur að því sam­fé­lagi sem við höfum unnið hörðum höndum að því að breyta í átt að, og eigum langt í land enn hvort sem það er í mál­efnum mann­réttinda og jafn­réttis fyrir alla.

Í loka­orðum segir Sig­mundur: „Hug­myndir um að flokka beri fólk eftir lit­brigðum húðarinnar. Þegar langt var komið með að út­rýma þeirri bá­bilju er hún endur­vakin og fólk aftur skil­greint út frá húð­lit.“ Í hvaða heimi hefur hann búið? Trúir hann því í al­vöru að við höfum verið komin í mark hvað varðar bar­áttu gegn kyn­þátta­hyggju og al­menn mann­réttindi? „Nú þarf að standa vörð um grunn­gildi vest­rænnar sið­menningar,“ herðir hann á hnútnum. Við erum sam­mála um að öll skulum teljast jafn­rétt­há, óháð líkam­legum ein­kennum og að það sé mikil­vægt grunn­gildi vest­rænnar menningar. Svo virðist hins vegar að þegar þeim hug­sjónum er ekki fylgt, þá megi ekki berjast fyrir þeim án þess að Sig­mundur sé mættur til að segja bar­áttu­að­ferð þeirra sem verða fyrir mis­réttinu ranga, of mikið á jaðrinum – ekki nógu þæga.

Mót­mælum eins­leitni, yfir­gangi og hroka

Um leið og mér þykir vænt um þann vest­ræna heim sem ég hef búið í, þá vil ég breyta honum og gera hann betri. Ég vil að hinn vest­ræni heimur sé frjáls­lyndari, rétt­látari, al­þjóð­legri og grund­vallist af jafn­rétti í hví­vetna. Við viljum ekki heim eins­leitni, yfir­gangs og hroka. Þeim heimi og þeirri sýn mun ég mót­mæla harð­lega og er í pólitík til að berjast gegn. Þar sem ég keyrði upp á fjöll til móts við jökla og sanda þá ræddum við vinirnir um mikil­vægi þess að láta heyra í sér, mót­mæla og gleyma því aldrei að bar­áttan er rétt að byrja, alveg sama hvað Sig­mundar þessa heims segja.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. júlí 2020