Sundabrú, sundabraut, betri samgöngur

Betri samgöngur í allar áttir

Fram undan er mikið uppbyggingarskeið í Reykjavík. Áætlanir um uppbyggingu íbúða gera ráð fyrir um 1.000 fullbúnum íbúðum á markað á ári, á næstu fjórum árum. Stærstu svæðin sem gert er ráð fyrir að byggist upp á næstu fjórum árum eru Leirtjörn við Úlfarsárdal, Hraunbær, Hlíðarendi, Ártúnshöfði, Gufunes, Vogarnir og Kirkjusandur. Þúsund íbúðir á ári er nokkuð meira en meðaltal síðustu ára en skipulagið er tilbúið og á mörgum þessara svæða er uppbygging þegar hafin.

ÍbúðasvæðiÁætlaður fjöldi íbúða á markað til ársins 2024
Leirtjörn, í Úlfarsárdal360
Hlíðarendi353
Gufunes I290
Kirkjusandur234
Ártúnshöfði IV Bryggjuhverfi220
Hraunbær-Bæjarháls215
Vogabyggð I210
Vogabyggð II200

Í öllum borgum kemur að því að iðnaðarhverfi, sem áður voru í jaðarbyggð, víkja fyrir íbúðum út í nýja jaðarbyggð. Þessa þróun sjáum við í dag í Vogunum, þar sem nýtt sólríkt hverfi, nálægt þjónustu og samgöngum er þegar að rísa. Þessa þróun munum við líka sjá upp á Ártúnshöfða þar sem iðandi mannlíf og íbúðir munu rísa.

Öflugari samgöngur

Skipulag íbúðahverfa þarf að hugsa í samhengi við skipulag borgarinnar og samgöngur, hvernig fólk kemst til og frá heimili sínu og vinnu og hvernig það getur sótt nauðsynlega þjónustu.

Við í meirihlutanum í Reykjavík viljum gera samgöngur þægilegri fyrir alla. Með því að horfa á stóru myndina, samspil þess hvar fólk býr, starfar og sækir þjónustu teljum við réttu leiðina til þess að byggja upp hágæða almenningssamgöngukerfi til að leiða fólk um borgina. Forsendur slíks samgöngukerfis er þétting byggðar í stað þess að brjóta alltaf upp nýtt land undir hverfi. Slík byggðastefna er ódýrari fyrir kaupendur íbúða og samfélagið í heild sinni.

Sundabrú eða göng bæti tengingar vestur

Í byrjun febrúar kynnti samgönguráðherra nýja skýrslu um Sundabraut þar sem fram kom greining um að Sundabrú yrði hagkvæmari en Sundagöng. Þær tillögur eru afar spennandi, þar sem brú yfir í Grafarvog og áfram upp að Vesturlandsvegi myndi bæta mjög tengingar við Vesturland og Grafarvog. Þær betri samgöngur myndu létta eitthvað á umferðinni um Ártúnshöfða. Falleg brú getur orðið eitt af einkennum borgarinnar sem gefur líka hjólandi og gangandi tækifæri til að nýta nýja innviði. 

Eins og fram hefur komið hjá samgönguráðherra þarf að gera félagshagfræðigreiningu á arðsemi gangna eða brúar áður en næstu skref yrðu tekin. Að henni lokinni er að hægt að skoða framkvæmdaráætlun af fullum þunga og þar á meðal hvernig vegagjöldum yrði háttað ef Sundabraut verður einkaframkvæmd, líkt og ráðherra hefur boðað.

Betri fjölbreyttar samgöngur

Reykjavík hefur líka verið að huga að virkum samgöngum fyrir hjólandi og gangandi til að mæta þeirri ótrúlegu sprengingu sem orðið hefur á öðrum samgöngum en í bílum. Sjálf reyni ég að hjóla úr Árbænum í Ráðhúsið 2-3 í viku, utan köldustu vetrarmánuðina og veit því hvað það skiptir máli að hafa góða hjólastíga. Við settum af stað stýrihóp um nýja hjólreiðaáætlun 2021-2025 til að bæta þessar samgöngu enn frekar.

Með því að efla fjölbreyttar samgöngur gefum við öllum frelsi til að velja þær samgöngur sem þeim hentar á hverjum tíma. Stundum viljum við keyra en stundum viljum við taka almenningssamgöngur, hjóla, vera á rafskútu eða ganga. Góð borg gefur okkur skipulag sem leyfir okur að velja samgöngumáta sem okkur hentar. 

Greinin birtist fyrst í Grafarvogs-, Árbæjar og Grafarholtsblaðinu í mars 2021

Tags: