22 júl Öflugt eftirlit með borginni
Stjórnsýsla Reykjavíkur á að vera einföld fyrir þá sem búa og starfa í borginni. Á síðasta ári réðst meirihluti borgarstjórnar í töluverðar skipulagsbreytingar til að ná þessum markmiðum og nú höldum við áfram að einfalda, skýra og skerpa.
Við höfum nú sameinað eftirlitsaðila Reykjavíkurborgar með því að færa umboðsmann borgarbúa og persónuverndarfulltrúa undir innri endurskoðun. Með sameiningunni styrkjum við eftirlit með starfsemi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar.
Sameinaðir kraftar eftirlitsaðila bjóða upp á öflugra starf en hjá smáum og dreifðum einingum. Lögð verður áhersla á sveigjanlegt teymisskipulag og skilvirkt samstarf innan innri endurskoðunar.
Með því að hafa þessa þrjá eftirlitsaðila undir einum hatti verður öll yfirsýn yfir þau mál sem snúa að Reykjavíkurborg betri. Greitt er úr flækjustigi sem getur hægt á þjónustu. Það mun einnig draga úr tvíverknaði innan borgarkerfisins, en við undirbúning sameiningar kom í ljós þó nokkur skörun verkefna hjá eftirlitsaðilum. Þá mun sameiningin fjölga tækifærum til að sinna fyrirbyggjandi eftirliti og efla ráðgjöf til borgarbúa og starfsmanna.
Verkefnum eftirlitsaðila verður sem áður sinnt með óháðum hætti. Innri endurskoðandi heyrir beint undir borgarráð og nýtur faglegs sjálfstæðis gagnvart stjórnmálamönnum og stjórnsýslu borgarinnar.
Þó svo að umboðsmaður borgarbúa sé ekki lengur sjálfstæð eining, verður eftir sem áður tekið á móti ábendingum og athugasemdum frá borgarbúum. Borgarbúar þurfa hins vegar ekki að velkjast í vafa um til hvaða eftirlitsaðila eigi að senda slíkar ábendingar, því nú verður hægt að beina þeim í einn farveg.
Við viljum einfaldara og skilvirkara eftirlitskerfi í þágu borgarbúa. Það höfum við nú gert með því að styrkja innra eftirlit borgarinnar.
Höfundur er oddviti Viðreisnar í Reykjavík