25 sep Deilum samgöngutækjum
Stór hópur fólks er að breyta samgönguvenjum sínum og enn fleiri vilja ferðast öðruvísi en í einkabílnum, eins og ný könnun Maskínu um ferðavenjur sýnir. Hjólandi fjölgar á höfuðborgarsvæðinu eftir átak í gerð hjólastíga og tilkomu rafmagnshjóla. Ég hef sjálf bæst við þann hóp og hjóla reglulega úr Árbænum og niður í ráðhús. Rafskútum hefur einnig snarfjölgað í borgarlandinu, eins og sést á innflutningstölum.
Kominn er stór markaður fyrir deilisamgöngur. Við viljum kannski ekki eiga hjól eða rafskútur en getum leigt þær í skamma stund af leigum. Þá er þægilegt að geta fundið þær víða.
Með þessu breytingum verður einnig til hópur fólks sem sér ekki tilgang í að eiga bíl fyrir einstaka ferð á milli þess sem hann bíður þolinmóður í bílastæðinu. Þess vegna ákvað borgarráð í gær að samþykkja að auglýsa eftir samstarfsaðilum um rekstur deilibílaleigu.
Aðferðin er sú sama og þegar Reykjavík auglýsti eftir samstarfsaðilum um rekstur deilihjólaleigu í fyrra. Zipcar deilibílaþjónusta er þegar í rekstri. En það er okkar trú að við þurfum að bregðast enn frekar við til að mæta þeirri hugarfarsbreytingu sem orðið hefur og styðja við markmið um fjölbreyttar ferðavenjur.
Deilisamgöngur ríma líka vel við ferðamálastefnu Reykjavíkur, sem verið er að leggja lokahönd á. Hún fjallar meðal annars um álag á samgöngur vegna rútubifreiða og bílaleigubíla. Þegar álagið vex aftur, þarf það að vera í sátt við íbúa. Því þarf að hanna samgöngur með það í huga að til dæmis draga úr rútuskutli á styttri vegalengdum.
Með deilisamgöngunum verður til þjónusta sem veitt er hverju sinni og dregur úr þörf á að fjárfesta í dýrum samgöngutækjum. Nái þær almennilegu flugi getur það dregið úr umferð bíla í borginni, þar sem íbúar nota deilibíla í bland við strætó, hjól, rafskútur eða ganga. Allt eftir því hvað hentar hverju sinni. Þannig aukum við frelsi allra til að ferðast.