Ráðhús Reykjavíkur

Vöxum út úr kófinu

Reykja­vík­ur­borg hef­ur ekki látið sitt eft­ir liggja í að bregðast við Covid-far­aldr­in­um, hvorki í sótt­vörn­um né efna­hags­lega. Strax var ákveðið að fylgja leiðsögn helstu hag­fræðinga og er­lendra stofn­ana og fara ekki í mik­inn niður­skurð og upp­sagn­ir starfs­manna og ýta þannig enn frek­ar und­ir vand­ann. Þess í stað var ákveðið að sækja fram með kraft­miklu grænu plani og vaxa út úr vand­an­um.

Far­ald­ur kallaði á auk­in út­gjöld

Árs­reikn­ing­ur Reykja­vík­ur, sem rædd­ur var í borg­ar­stjórn á þriðju­dag, ber þess merki. Hann ber merki þess að at­vinnu­leysi Reyk­vík­inga jókst úr því að vera 3.500 manns í upp­hafi árs í 8.600 í lok þess. Sam­drátt­ur í ferðaþjón­ustu og minni um­svif þýddu tekju­sam­drátt hjá Faxa­flóa­höfn­um, Strætó og Sorpu. Veik­ing krón­unn­ar og óstöðugt gengi þýddi fimm millj­arða bók­færðan kostnað hjá Orku­veitu Reykja­vík­ur.

Árs­reikn­ing­ur­inn ber þess líka merki að meiri­hlut­inn í borg­ar­stjórn ákvað að standa með fólki og fyr­ir­tækj­um í Reykja­vík á erfiðum tím­um. Borg­ar­ráð samþykkti á síðasta ári 2,3 millj­arða fjár­veit­ingu í aðgerðir til að styðja m.a. menn­ingu, ferðaþjón­ustu, íþrótt­ir, skóla, frí­stund og vel­ferð í borg­inni. Auk­in þrif, til að verj­ast far­aldr­in­um, kostuðu hátt í 100 millj­ón­ir.

Auk beinna fram­laga eru ótald­ar aðrar aðgerðir, svo sem frest­un fast­eigna­gjalda fyr­ir fyr­ir­tæki sem urðu illa úti vegna far­ald­urs­ins, lækk­un fast­eigna­skatta á at­vinnu­hús­næði og aðgerðir sem fjár­magnaðar voru úr fjár­hagsramma sviða borg­ar­inn­ar. Þá eru líka ótald­ar fjár­fest­ing­ar borg­ar­inn­ar, sem ákveðið var að flýta og styðja þannig við at­vinnu­lífið.

Vöxt­ur­inn þarf að vera grænn

Við í meiri­hlut­an­um sett­um okk­ur þá stefnu við fjár­hags­áætl­un þessa árs að gefa í við nauðsyn­leg­ar fram­kvæmd­ir og taka stór græn skref til framtíðar. Sem bet­ur fer sjá­um við, m.a. á árs­reikn­ingi Reykja­vík­ur­borg­ar, að ástandið varð ekki eins slæmt og svört­ustu spár gáfu til kynna. Skref­in fram á við geta því orðið létt­ari. En nú er tím­inn fyr­ir fram­kvæmd­ir og fjár­fest­ing­ar. Reykja­vík­ur­borg er öfl­ugt sveit­ar­fé­lag sem hef­ur góða burði til að auka við fjár­fest­ing­ar og örva at­vinnu­lífið.

Lægstu skuld­ir á höfuðborg­ar­svæðinu

Stór orð hafa verið uppi um skulda­stöðu Reykja­vík­ur­borg­ar, sem gefa kolranga mynd. Skuld­ir sveit­ar­fé­laga eru tak­markaðar af sveit­ar­stjórn­ar­lög­um við 150% skuldaviðmið. Í árs­reikn­ingi 2020 er skuldaviðmið Reykja­vík­ur­borg­ar 88%. Af öðrum sveit­ar­fé­lög­um á höfuðborg­ar­svæðinu er skuldaviðmið Garðabæj­ar 71%, Mos­fells­bæj­ar 100%, Hafn­ar­fjarðar 101% og Kópa­vogs 105%.

Ef ein­ung­is er litið til þess hluta borg­ar­inn­ar sem er fjár­magnaður með skatt­tekj­um og sinn­ir al­mennri þjón­ustu við borg­ar­búa (A-hluta) er hlut­fallið enn lægra og er skulda­hlut­fall Reykja­vík­ur­borg­ar lægst á öllu höfuðborg­ar­svæðinu. Skuld­ir Reykja­vík­ur­borg­ar, þegar hlut­ur Orku­veit­unn­ar er meðtal­inn, hljóma kannski háar. En á móti koma 730 millj­arða eign­ir borg­ar­inn­ar og er hrein eign á hvern íbúa hvergi meiri á höfuðborg­ar­svæðinu.

Bjart­ir tím­ar fram und­an

Áætlan­ir um bólu­setn­ing­ar gefa til­efni til bjart­sýni um að unnt verði að ráða niður­lög­um far­ald­urs­ins á þessu ári. Þríeykið hef­ur staðið sig vel í að verja þjóðina gegn far­aldr­in­um og ég hef sjálf fengið að kynn­ast því hversu gott skipu­lag er á bólu­setn­ing­um. Byrjað er að bólu­setja síðasta for­gangs­hóp­inn, þar sem ár­gang­ar sem voru bara ung­ling­ar í gær hafa verið boðaðir. Með hækk­andi sól mun Reykja­vík áfram standa keik með fólki og fyr­ir­tækj­um í borg­inni. Veita stuðning þegar á þarf að halda og standa við áætlan­ir um hvernig við ætl­um að vaxa út úr kóf­inu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. maí 2021