06 maí Vöxum út úr kófinu
Reykjavíkurborg hefur ekki látið sitt eftir liggja í að bregðast við Covid-faraldrinum, hvorki í sóttvörnum né efnahagslega. Strax var ákveðið að fylgja leiðsögn helstu hagfræðinga og erlendra stofnana og fara ekki í mikinn niðurskurð og uppsagnir starfsmanna og ýta þannig enn frekar undir vandann. Þess í stað var ákveðið að sækja fram með kraftmiklu grænu plani og vaxa út úr vandanum.
Faraldur kallaði á aukin útgjöld
Ársreikningur Reykjavíkur, sem ræddur var í borgarstjórn á þriðjudag, ber þess merki. Hann ber merki þess að atvinnuleysi Reykvíkinga jókst úr því að vera 3.500 manns í upphafi árs í 8.600 í lok þess. Samdráttur í ferðaþjónustu og minni umsvif þýddu tekjusamdrátt hjá Faxaflóahöfnum, Strætó og Sorpu. Veiking krónunnar og óstöðugt gengi þýddi fimm milljarða bókfærðan kostnað hjá Orkuveitu Reykjavíkur.
Ársreikningurinn ber þess líka merki að meirihlutinn í borgarstjórn ákvað að standa með fólki og fyrirtækjum í Reykjavík á erfiðum tímum. Borgarráð samþykkti á síðasta ári 2,3 milljarða fjárveitingu í aðgerðir til að styðja m.a. menningu, ferðaþjónustu, íþróttir, skóla, frístund og velferð í borginni. Aukin þrif, til að verjast faraldrinum, kostuðu hátt í 100 milljónir.
Auk beinna framlaga eru ótaldar aðrar aðgerðir, svo sem frestun fasteignagjalda fyrir fyrirtæki sem urðu illa úti vegna faraldursins, lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og aðgerðir sem fjármagnaðar voru úr fjárhagsramma sviða borgarinnar. Þá eru líka ótaldar fjárfestingar borgarinnar, sem ákveðið var að flýta og styðja þannig við atvinnulífið.
Vöxturinn þarf að vera grænn
Við í meirihlutanum settum okkur þá stefnu við fjárhagsáætlun þessa árs að gefa í við nauðsynlegar framkvæmdir og taka stór græn skref til framtíðar. Sem betur fer sjáum við, m.a. á ársreikningi Reykjavíkurborgar, að ástandið varð ekki eins slæmt og svörtustu spár gáfu til kynna. Skrefin fram á við geta því orðið léttari. En nú er tíminn fyrir framkvæmdir og fjárfestingar. Reykjavíkurborg er öflugt sveitarfélag sem hefur góða burði til að auka við fjárfestingar og örva atvinnulífið.
Lægstu skuldir á höfuðborgarsvæðinu
Stór orð hafa verið uppi um skuldastöðu Reykjavíkurborgar, sem gefa kolranga mynd. Skuldir sveitarfélaga eru takmarkaðar af sveitarstjórnarlögum við 150% skuldaviðmið. Í ársreikningi 2020 er skuldaviðmið Reykjavíkurborgar 88%. Af öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu er skuldaviðmið Garðabæjar 71%, Mosfellsbæjar 100%, Hafnarfjarðar 101% og Kópavogs 105%.
Ef einungis er litið til þess hluta borgarinnar sem er fjármagnaður með skatttekjum og sinnir almennri þjónustu við borgarbúa (A-hluta) er hlutfallið enn lægra og er skuldahlutfall Reykjavíkurborgar lægst á öllu höfuðborgarsvæðinu. Skuldir Reykjavíkurborgar, þegar hlutur Orkuveitunnar er meðtalinn, hljóma kannski háar. En á móti koma 730 milljarða eignir borgarinnar og er hrein eign á hvern íbúa hvergi meiri á höfuðborgarsvæðinu.
Bjartir tímar fram undan
Áætlanir um bólusetningar gefa tilefni til bjartsýni um að unnt verði að ráða niðurlögum faraldursins á þessu ári. Þríeykið hefur staðið sig vel í að verja þjóðina gegn faraldrinum og ég hef sjálf fengið að kynnast því hversu gott skipulag er á bólusetningum. Byrjað er að bólusetja síðasta forgangshópinn, þar sem árgangar sem voru bara unglingar í gær hafa verið boðaðir. Með hækkandi sól mun Reykjavík áfram standa keik með fólki og fyrirtækjum í borginni. Veita stuðning þegar á þarf að halda og standa við áætlanir um hvernig við ætlum að vaxa út úr kófinu.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. maí 2021