Grunnskóli vinna verjum störfin

Við vörðum störfin

Árs­reikningur Reykja­víkur­borgar liggur nú fyrir. Síðasta ár fór ekki, hjá neinu okkar, eins og við höfðum ætlað í upp­hafi árs. Far­aldurinn sá til þess. Það átti við á­ætlanir Reykja­víkur­borgar eins og annarra. Greitt út­svar var 2,6 ma. kr. minni en reiknað hafði verið með, vegna þess að því miður jókst at­vinnu­leysi veru­lega í Reykja­vík. Aðrar tekjur voru 4 ma. kr. undir á­ætlun.

Út­gjöldin jukust hins vegar því það þurfti að bregðast hratt við til að tryggja nauð­syn­lega þjónustu, þrátt fyrir sótt­varna­tak­markanir. Víða þurfti líka að auka við þjónustu, eins og við barna­vernd. Fjár­heimildir sviða borgarinnar jukust um 2,3 ma. kr. á árinu, bara til að bregðast við CO­VID og því á­standi sem það skapaði.

Fyrir ári síðan stóð borgar­ráð allt, þvert á f lokka, saman að því að vilja að­stoða heimilin og fyrir­tækin í Reykja­vík á erfiðum tímum. Við í meiri­hlutanum settum okkur þá stefnu við fjár­hags­á­ætlun þessa árs að gefa í við nauð­syn­legar fram­kvæmdir og taka stór græn skref til fram­tíðar.

Með­vituð á­kvörðun að verja störf

Við tókum með­vitaða á­kvörðun um að standa vörð um störfin. Það var ekki val­kostur í okkar huga að auka við at­vinnu­leysi í borginni með því að segja upp fjölda starfs­manna. Á síðasta ári var launa­kostnaður 60% rekstrar­tekna borgarinnar. Niður­skurður til að mæta minni tekjum hefði því alltaf þýtt upp­sagnir.

Í upp­haf i ársins 2020 voru 3.500 ein­staklingar at­vinnu­lausir í Reykja­vík. Í lok ársins hafði sá fjöldi rúm­lega tvö­faldast og var 8.600. Reyk­víkingum sem þiggja fjár­hags­að­stoð hefur fjölgað um 200 frá því á sama tíma á síðasta ári. Við þennan vanda vildi meiri­hlutinn í Reykja­vík ekki bæta, enda væri það þvert á allar efna­hags­legar ráð­leggingar.

Starfs­mönnum Reykja­víkur­borgar fjölgaði um 5%, alls um 348. Við bættum við 190 starfs­mönnum á vel­ferðar­sviði, við þjónustu við borgar­búa. Þá fjölgaði starfs­mönnum í skólum, leik­skólum og í frí­stund um 134, við þjónustu við börnin.

Við höfum burði til að örva at­vinnu­lífið

Við fórum líka í átak til að fjölga tíma­bundnum störfum hjá borginni. Sumar­störfum var fjölgað um 600 til að koma til móts við erfið­leika stúdenta við að fá sumar­störf. Við höfum sett á fót vinnu­torg til að að­stoða Reyk­víkinga sem eru án at­vinnu. Við höfum sett kraft í að fjölga verk­efnum hjá borginni sem krefjast þjónustu sem borgin kaupir af fyrir­tækjum og einka­aðilum.

Reykja­víkur­borg er öflugt sveitar­fé­lag sem hefur góða burði til að auka við fjár­festingar og örva at­vinnu­lífið. Ef litið er til grunn­reksturs sveitar­fé­lagsins og fyrir­tæki undan­skilin, hefur Reykja­víkur­borg lægsta skulda­hlut­fall sveitar­fé­laga á höfuð­borgar­svæðinu. Því getum við staðið hér keik með fólki og fyrir­tækjum í borginni. Veitt stuðning þegar á þarf að halda og staðið við á­ætlanir um hvernig við ætlum að vaxa út úr kófinu.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. maí 2021