06 maí Við vörðum störfin
Ársreikningur Reykjavíkurborgar liggur nú fyrir. Síðasta ár fór ekki, hjá neinu okkar, eins og við höfðum ætlað í upphafi árs. Faraldurinn sá til þess. Það átti við áætlanir Reykjavíkurborgar eins og annarra. Greitt útsvar var 2,6 ma. kr. minni en reiknað hafði verið með, vegna þess að því miður jókst atvinnuleysi verulega í Reykjavík. Aðrar tekjur voru 4 ma. kr. undir áætlun.
Útgjöldin jukust hins vegar því það þurfti að bregðast hratt við til að tryggja nauðsynlega þjónustu, þrátt fyrir sóttvarnatakmarkanir. Víða þurfti líka að auka við þjónustu, eins og við barnavernd. Fjárheimildir sviða borgarinnar jukust um 2,3 ma. kr. á árinu, bara til að bregðast við COVID og því ástandi sem það skapaði.
Fyrir ári síðan stóð borgarráð allt, þvert á f lokka, saman að því að vilja aðstoða heimilin og fyrirtækin í Reykjavík á erfiðum tímum. Við í meirihlutanum settum okkur þá stefnu við fjárhagsáætlun þessa árs að gefa í við nauðsynlegar framkvæmdir og taka stór græn skref til framtíðar.
Meðvituð ákvörðun að verja störf
Við tókum meðvitaða ákvörðun um að standa vörð um störfin. Það var ekki valkostur í okkar huga að auka við atvinnuleysi í borginni með því að segja upp fjölda starfsmanna. Á síðasta ári var launakostnaður 60% rekstrartekna borgarinnar. Niðurskurður til að mæta minni tekjum hefði því alltaf þýtt uppsagnir.
Í upphaf i ársins 2020 voru 3.500 einstaklingar atvinnulausir í Reykjavík. Í lok ársins hafði sá fjöldi rúmlega tvöfaldast og var 8.600. Reykvíkingum sem þiggja fjárhagsaðstoð hefur fjölgað um 200 frá því á sama tíma á síðasta ári. Við þennan vanda vildi meirihlutinn í Reykjavík ekki bæta, enda væri það þvert á allar efnahagslegar ráðleggingar.
Starfsmönnum Reykjavíkurborgar fjölgaði um 5%, alls um 348. Við bættum við 190 starfsmönnum á velferðarsviði, við þjónustu við borgarbúa. Þá fjölgaði starfsmönnum í skólum, leikskólum og í frístund um 134, við þjónustu við börnin.
Við höfum burði til að örva atvinnulífið
Við fórum líka í átak til að fjölga tímabundnum störfum hjá borginni. Sumarstörfum var fjölgað um 600 til að koma til móts við erfiðleika stúdenta við að fá sumarstörf. Við höfum sett á fót vinnutorg til að aðstoða Reykvíkinga sem eru án atvinnu. Við höfum sett kraft í að fjölga verkefnum hjá borginni sem krefjast þjónustu sem borgin kaupir af fyrirtækjum og einkaaðilum.
Reykjavíkurborg er öflugt sveitarfélag sem hefur góða burði til að auka við fjárfestingar og örva atvinnulífið. Ef litið er til grunnreksturs sveitarfélagsins og fyrirtæki undanskilin, hefur Reykjavíkurborg lægsta skuldahlutfall sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Því getum við staðið hér keik með fólki og fyrirtækjum í borginni. Veitt stuðning þegar á þarf að halda og staðið við áætlanir um hvernig við ætlum að vaxa út úr kófinu.