Öruggt neyslurými í Reykjavík

Við fögnum því að Ylja, sem er öruggt neyslurými í sérútbúnum bíl, tekur til starfa í dag. Frá upphafi hefur þessi meirihluti lagt áherslu á að aðstoða viðkvæma og jaðarsetta einstaklinga í Reykjavík, út frá hugmyndum um valdeflingu og skaðaminnkun. Við settum því strax í meirihlutasáttmálann fyrir fjórum árum að við vildum koma hér upp neyslurými í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld.

Það hefur tekið nokkurn tíma að fá lagaheimildir og svo samning við heilbrigðisyfirvöld til að geta veitt þessa þjónustu en nú erum við komin af stað. Embætti landlæknis hefur gefið út starfsleyfi vegna Ylju og samningur Reykjavíkur og Rauða krossins um rekstur er fyrir hendi. Ylja er farin að rúlla.

Skaðaminnkandi aðgerðir, líkt og öruggt neyslurými, draga úr hættulegum afleiðingum notkunar ávana- og fíkniefna. Með því að veita öruggan vettvang, handa fólki sem mun nota vímuefni í æð, komum við í veg fyrir aukinn skaða, að fólk veikist eða jafnvel deyi. Þannig aukum við lífsgæði þessa jaðarhóps og aðstandanda hans.

Skaðaminnkandi verkefni, líkt og Ylja, byggja á því að byggja upp traust, veita stuðning og viðhalda mannlegri reisn þeirra sem munu koma til með að nota neyslurýmið, líkt og við alla aðra heilbrigðisþjónustu. Því rekstur neyslurýma er heilbrigðisþjónusta.

Rauði krossinn hefur um árabil rekið skaða­minnkandi verkefnið Frú Ragnheiður, þar sem traust hefur myndast til að veita aukna þjónustu og stuðning sem nær mun lengra en bara til nálaskipta. Líkt og hjá Frú Ragnheiði býður Ylja upp á rakið tækifæri til að ná til jaðarsetts hóps sem erfitt er að ná til. Með því að veita enn frekari þjónustu með Ylju gefast því líka tækifæri til að veita bæði lágmarks heilbrigðisþjónustu og sinna sálrænum stuðningi og ráðgjöf.

Það er fjölbreytt flóra einstaklinga sem byggir borg og það er hlutverk okkar sem stjórnum borginni að gæta þess að allir einstaklingar geti hér blómstrað á sínum forsendum.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. mars 2022