Frelsi í samgöngum

Frelsi til að ferðast

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu þurfa aukið frelsi til að velja sína leið í samgöngum. Sanngjarnast er að valið standi á milli raunhæfra valkosta. Í því skyni er samgöngusáttmálinn tímamótasamningur. Þar er umferðarvandi þorra landsbúa kominn á dagskrá. Lausnir felast í uppbyggingu stofnvegakerfisins, bestun ljósastýringar, bættum almenningssamgöngum og heildstæðu hjólastígakerfi.

Samkomulag um sanngjarnt kerfi

Sveitarstjórnir höfuðborgarsvæðisins hafa komið sér saman um sanngjarnt kerfi samgangna. Þar munu allir hafa raunhæft val um að ferðast með þeim hætti sem þeir kjósa. Með bættum almenningssamgöngum og betra kerfi göngu- og hjólastíga teljum við að hægt verði að auka hlut þeirra sem ekki ferðast á einkabíl úr 24% í 36%. Þetta skiptir verulegu máli. Spár gera ráð fyrir að bílaumferð myndi aukast a.m.k. um 40% á næstu 15 árum, ef ekkert er að gert.

Óbreytt ástand eru lengri tafir og mengun

Ef ekki er boðið upp á fjölbreyttara val í samgöngum, sem auðveldar fólki að komast til vinnu eða skóla, munu umferðartafirnar bara lengjast og umferðarmengunin aukast. Við viljum öll frekar eyða tíma okkar og peningum í annað en enn erfiðari morgunumferð, stress eða hvort við náum tímanlega að sækja börnin á leikskólann síðdegis. Öll viljum við líka betri loftgæði og færri daga þar sem börn og þau sem eru viðkvæm í lungum eru hvött til að halda sig inni við þegar umferðin hefur mengað of mikið.

Komumst fljótar á leiðarenda

Til að bæta samgöngur fyrir alla þarf að besta ljósastýringu og liðka fyrir þungum umferðarstraumi og draga þar með úr töfum. Samgöngusáttmálinn gerir ráð fyrir 7,2 ma. kr. í bætta umferðarstýringu og öryggisaðgerðir. Það þarf að stuðla að hagkvæmum almenningssamgöngum sem mun einnig draga úr loftmengun, þrengslum, hávaða og slysum. Með sérakreinum strætisvagna og nýju leiðakerfi sem leyfir notendum að komast fljótar á áfangastað verða almenningssamgöngur raunhæfur valkostur fyrir enn fleiri íbúa. Með góðu hjólastígakerfi verða hjólreiðar samgöngukostur, allt árið um kring fyrir vaxandi hóp hjólreiðafólks,

Ekkert að vanbúnaði

Fram undan eru ærin verkefni sem hafa verið vel undirbúin með greiningum, skoðunum og umræðu. Undirbúningur við stofnvegaframkvæmdir, Borgarlínu og bestun á ljósastýringum er formlega hafinn í góðu samstarfi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðarinnar. Fjármagn hefur verið tryggt og áætlað að framkvæmdir hefjist árið 2020. Okkur er því ekkert að vanbúnaði – nú er bara að láta hlutina gerast svo allir komist á áfangastað, sama hvaða ferðamáta þeir kjósa.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. október 2019