02 jún Betri samgöngur um stærri borg
Reykjavíkurborg er í mikilli þróun. Borgin er að stækka. Íbúum hefur fjölgað um 2-3 þúsund manns á ári þetta kjörtímabil og mun halda áfram að fjölga. Störfum er líka að fjölga innan borgarmarka Reykjavíkur, þrátt fyrir tímabundið atvinnuleysi sökum Covid.
Þetta þýðir aukna umferð um borgina og nágrannasveitarfélög og, ef ekkert er að gert, auknar tafir á götum borgarinnar fyrir okkur öll. Þetta þýðir líka aukinn útblástur þegar við þurfum að draga úr honum til að ná loftslagsmarkmiðum og ef við ætlum að eiga þess einhvern kost að skila umhverfinu frá okkur til komandi kynslóða án þess að velta öllum fórnarkostnaðnum vegna loftslagshlýnunar yfir á þær. Því þurfum við að endurhugsa skipulagið og stefna í aðra átt.
Þétting byggðar býður upp á meiri þjónustu
Hvort sem við hugsum til langs eða skamms tíma þurfum við því að skipuleggja umhverfið okkar þannig að við þurfum ekki að þvælast um alla borg, frekar en við viljum. Með þéttingu byggðar og fleiri íbúum í kringum hvern hverfiskjarna verða til tækifæri fyrir fleiri fyrirtæki að verða til sem bjóða upp á ýmsa þjónustu fyrir hverfið.
Og ef við viljum eða þurfum að fara á milli borgarhluta þá séu fleiri valkostir í boði en bara einkabíllinn. Sumir virðast helst vilja fjölga bílum í umferð og benda á að hugsanlega verði sjálfkeyrandi bílar framtíðin. Það er hugsanlegt en það er ekkert sem bendir til að þeir einir muni fækka bílum í umferð. Fyrst þyrftum við að umbreyta hugsunarhætti okkar um hvort við þyrftum hvert að eiga bíl eða hvort við séum tilbúin að deila bifreiðinni með öðrum.
Við þurfum margar fjölbreyttar lausnir en ekki eina töfralausn
Lausnin getur ekki verið nein ein. Við þurfum að hugsa í fjölbreytni til að auka valkostum og frelsi borgarbúa til að velja þær samgöngur sem þeim hentar best. Því er svo frábært að sjá rafskútum fjölga út um allt. Öll met eru slegin í sölu reiðhjóla, bæði venjulegra og rafmagnshjóla sem stórauka möguleika okkar í úthverfunum til þess að hjóla upp Ártúnsbrekkuna og heim.
Sjálf hjóla ég reglulega úr Árbænum niður í miðborg og aftur heim. Hvor leið tekur rúmar 20 mínútur, hvernig svo sem umferðin er. Að keyra getur tekið mig frá 10-45 mínútur, eftir því hve margir aðrir eru á veginum. Suma daga keyri ég. Aðra daga tek ég líka strætó og get ekki beðið eftir því að hafa valmöguleikann á að komast þessa leið með Borgarlínunni, sem mun hafa forgang fram yfir aðra umferð. Meðfram Borgarlínu eru fasteignafélög að undirbúa uppbyggingu nýrra íbúða, þar sem einn helsti sölupunkturinn verður hve góðar almenningssamgöngur verða í nágrenninu.
Örugg leið áfram
Við viljum öll komast örugglega leiðar okkar. En það er líka samhljómur í borgarstjórn, meðal allra flokka, að umferð þar sem börn eru á leið í skóla eða frístund skuli vera róleg. Það vill enginn hraða umferð í gegnum hverfið sitt. Það er það sem hámarkshraðaáætlun Reykjavíkur snýst um og sú forgangsröðun í innleiðingu hennar sem samþykkt hefur verið. Hægja á umferðinni inn í hverfunum. En breyta í engu umferð á stórum samgönguæðum eins og Gullinbrú, Höfðabakka, Miklubraut, Sæbraut og Ártúnsbrekkunni. Þá mun Strandvegur og Víkurvegur áfram vera 50 km. vegir.
Umferð út úr borginni á líka að vera greið. Því bíð ég spennt eftir því að félagshagfræðigreiningu samgönguráðherra á Sundabraut ljúki, svo hægt sé að taka þar næstu skref verði niðurstaðan sú að Sundabrú sé hagkvæmur kostur fyrir Reykvíkinga og þjóðina alla.
Við í Viðreisn viljum að fólk geti valið úr mörgum raunhæfum kostum en standi ekki frammi fyrir einum valkosti. Hvort sem það er í samgöngumálum, menntamálum, heilbrigðismálum eða öðru.