Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Fréttir úr borginni

Júlí 2021

Skógrækt í sumarfríi

Borgarstjórn fór í sumarfrí um miðjan júní en borgarráð heldur áfram í allt sumar. Við skiptum með okkur verkum yfir hásumarið til að næra líkama og sál.

Þrátt fyrir að vera borgarstúlka fram í fingurgóma þá er ég líka mikil landsbyggðakona enda skógarbóndi í Þingeyjarsveit. Í júní tók ég frí í tvær vikur til að sinna hlutverki skógarbóndans og gróðurðursetti um 11 þúsund trjáplöntur með dyggri aðstoð fjölskyldunnar. Á myndinni hérna með er ég einmitt að gróðursetja með Hjördísi Geirsdóttur, sem ég kalla yfirleitt bara mömmu.

Í sumar mun ég svo af og til fara norður og huga að trjánum og njóta norðlenskrar veðurblíðu á milli þess sem ég stýri borgarráði og leysi borgarstjóra af í hans sumarfríi.
Lóa og Hjördís

Alþjóðleg viðurkenning á stafrænni þróun

stafræn þróun
Júní var mjög tíðindaríkur mánuður hjá Reykjavíkurborg og all margar mikilvægar ákvarðanir sem við tókum í borgarráði, sem munu skipta íbúa miklu máli. Við hleyptum af stað nokkrum rafrænum umsóknarferlum, eins og að endurhugsa hvernig sótt er um skólaþjónustu út frá þörfum notenda. Við tókum markvissa ákvörðun um að setja 10 milljarða á næstu árum til að umbylta rafrænni þjónustu Reykjavíkur, því við vitum að það er þannig sem fólk vill eiga í samskiptum við borgina og fá þjónustuna.

Þessi stóru skref sem við erum að taka í stafrænni þróun fengu alþjóðlega viðurkenningu í lok júní þegar var tilkynnt að Reykjavíkurborg væri ein af sex borgum í þriggja ára nýsköpunarverkefni, “Build Back Better,” á vegum Bloomberg Philanthropies. Að komast í þetta verkefni þýðir að borgin fær fjárframlag upp á rúmar 270 milljónir til að hraða stafrænni þróun borgarinnar.

Samhæfum þjónustu skóla og velferðar fyrir börn

leikskólar
Þróun á rafrænni umsókn um skólaþjónustu er partur af framkvæmdaáætlun nýrrar velferðarstefnu í Reykjavík sem við samþykktum í borgarstjórn í júní. Það sem ég er hvað ánægðust með í þeirri stefnu er hvernig skóla- og frístundasvið og velferðarsvið borgarinnar verður aukið til muna til styrkja þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra svo um alla borg verði betri borg fyrir börn. Við eigum að hugsa þjónustuna út frá þörfum notenda, það er okkur í Viðreisn mikið hjartans mál og er yfirlýst þjónustustefna borgarinnar. Með innleiðingu á velferðarstefnunni verður líka opnuð rafræn þjónustumiðstöð, í samræmi við óskir Reykvíkinga.

Við höfum séð það að Covid hefur ekki farið vel í börnin og ungmennin okkar. Biðlistar vegna tilfinningavanda eru að lengjast hjá skólaþjónustunni eru að lengjast og því ákváðum við að setja pening í átak til að vinna á þeim vanda strax. Um þetta skrifaði ég grein.

Við kynntum líka verkefni um samþættan leik- og grunnskóla og frístundaheimili í Skerjafirði og í Vogabyggð, nýjan leikskóla í Völvufelli og lögðum fram fjárhagsáætlun vegna leikskóla við Kleppsveg. Reykvíkingum er að fjölga og við verðum að fjölga leikskólum og grunnskólum í samræmi við vöxt borgarinnar. Það er lykillinn að því að ná að brúa hið margfræga bil.

Fleiri íbúar í stækkandi borg

Skipulagsmálin eru alltaf stór hjá borginni. Seðlabankastjóri var í síðustu viku að hvetja til þess að nýtt land yrði brotið undir byggð og horfið yrði frá þéttingarstefnu Reykjavíkur. Þarna er ég mjög ósammála Ásgeiri. Það er skammsýni að bregðast við skammtímavanda núna með því að stækka borgina enn fremur að flatarmáli. Það sem Ásgeir lagði til er að pissa í skóinn með óhagkvæmri og óumhverfisvænni leið.

Skýrsla peningustefnunefndar Seðlabanka Íslands var birt í gær. Þar (á bls. 50) er fjallað um hækkun á fasteignaverði. Líkt og ég og fleiri höfum bent á, segir nefndin ljóst að "efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar og vaxtalækkanir Seðlabankans hafa ýtt undir eftirspurn á fasteignamarkaði". Peningastefnunefndin virðist ekki sammála seðlabankastjóra um að um sé að kenna lóðaskorti í Reykjavík.

Borgarlínan er ekki bara uppbygging á samgönguleið. Það er sýn sem við höfum um þéttingu byggðar til þess að mannlíf og þjónusta byggist upp í mörgum hverfum borgarinnar. “Inn með úthverfin” sagði ég oft og iðulega í kosningabaráttunni 2018 og meinti það. Við styrkjum úthverfin með því að gera þau sjálfbærari. Og það gerum við með þéttari byggð en ekki dreifðari. Þessi sýn kemur fram í breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur, sem við samþykktum í júní, hverfisskipulagi Breiðholts og nýju deiliskipulag fyrir Elliðaárvog/ Ártúnshöfða sem nú er komið í auglýsingu, þar sem hverfi á stærð við Grafarvog mun rísa, án þess að brjóta nýtt land. Við erum meira að segja að þétta byggð þar sem nú eru bensínstöðvar, í góðri sátt við olíudreifingarfyrirtækin og fækka þar með bensínstöðvum um þriðjung.

Reykvíkingur ársins

Ég mætti á bakka Elliðaáa eldsnemma að morgni 20. júní til að opna ána með Reykvíking ársins 2021. Að þessu sinni var það Guðjón Óskarsson sem hlaut viðurkenninguna. Hann hefur hreinsað rúmlega 56 þúsund tyggjóklessur af gangstéttum borgarinnar í um ár núna. En þetta átti í upphafi að vera nokkurra vikna átak hjá honum.

Við eigum sem betur fer marga samborgara sem þykir ósköp vænt um borgina sína og vilja leggja sitt af mörkum til að gera hana betri og fallegri. Við öll borgarbúar erum samfélagið og ráðum miklu um það hvernig okkar umhverfi er.
gudjon_oskarsson (1)
Með kveðjum úr borgarráði,
Þórdís Lóa
facebook twitter instagram linkedin