Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Fréttir úr borginni

Júní 2021
An image of...

Sumarið er komið

Sumarið er komið, a.m.k. á Akureyri, eins og við sáum í fréttum helgarinnar. Með sumrinu kemur Sumarborgin með fjölda viðburða um alla borg þar sem hægt er að taka þátt í útidanstímum, jóga, sundballett, göngutúrum um borgina og margt fleira. Ég hvet ykkur til að fylgjast með Borginni okkar á Facebook í sumar og sjá hvað er í boði.

Fyrir mér er sumarið líka að komast norður í Þingeyjarsýsluna og sinna skógrækt. Ég stefni á að koma 11 þúsund plöntum niður þetta árið með góðri hjálp. Skógarbóndinn ég hef verið fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga við gerð að landsáætlun í skógrækt 2021-2031. Á föstudaginn ætlum við að kynna drög að landsáætlun fyrir sveitarfélögunum og getur skógræktarfólk
kynnt sér drögin hér.

Hvernig verður atvinnulífið í borginni eftir Covid?

IMG_0265
Það hefur verið margt í gangi í borgarráði í maí. Við fengum skýrslu Borgarvaktarinnar, þar sem m.a. var fjallað um atvinnuleysi fyrstu þrjá mánuði ársins. Sem betur fer virðist efnahagslífið vera að taka við sér og líkur á að það dragi hratt úr atvinnuleysinu. Við samþykktum reglur fyrir greiðsludreifingu á fasteignagjöldum fyrir fyrirtæki sem urðu fyrir tekjufalli vegna Covid, því við vitum að það tekur tíma fyrir tekjurnar að streyma inn aftur.

Við þurfum líka að gera þjónustu Reykjavíkur fyrir þægilegri og nútímalegri. Þess vegna höfum við samþykkt 10 milljarða uppbyggingu á stafrænni þróun borgarinnar. Á föstudagsmorgun kl. 9.00 verður Reykjavíkurborg með opinn fund um hvað felst í þessari stafrænu vegferð.

„Ný“ Laugardalslaug

laugardalslaug-thermal-pool
Við samþykktum hönnunarsamkeppni um endurgerð á Laugardalslaug. Laugardalslaug er okkar stærsta sundlaug og sú sem oftast er heimsótt. Stúkusvæðið við laugina er ein af kennileitum borgarinnar en því miður hefur það svæði verið vannýtt. Við köllum því eftir því að viðhalda í meginatriðum útliti þessa mannvirkja sem við þekkjum, en að stúkan og aðrir vannýttir hlutar bygginganna verði þróaðir betur, svo að þetta mikla mannvirki nýtist betur.

Við stefnum að því að endurgerðin verði umhverfisvottuð út frá „BREEAM Refurbishment“ og hún taki tillit til aðgengis fyrir alla. Bæði er stefnt að því að húsnæðið sjálft verði öllum aðgengilegt en líka afþreyingartæki, svo sem rennibraut. Yrði það fyrsta sundlaugarrennibrautin á Íslandi sem yrði aðgengileg öllum.

Nýir hjólastígar og endurnýjun gangstétta

Við samþykktum að endurnýja 2,6 km af eldri gangstéttum og öðrum gönguleiðum í öllum hverfum og að gera nýja hjólastíga, m.a. við Snorrabraut, Háaleitisbraut, í Elliðaárdal, Þverársel, Kjalarnes og í Gufunesi.

Við fengum líka kynningu á hjólreiðaáætlun, þar sem við ætlum að fjölga hjólastígum um 70 km og gera það auðveldara fyrir alla að hjóla. Við höfum séð hjólandi fjölga með hjólastígum aðskildum annarri umferð. Þar sem fólki finnst öruggt að hjóla, þar er hjólað.
Þórdís Lóa hjól
Með kveðjum úr borgarráði,
Þórdís Lóa
facebook twitter instagram linkedin